Quantcast
Channel: Fornleifur
Viewing all articles
Browse latest Browse all 396

Þorbjörn ræskir sig á ári rottunnar

$
0
0

s-l1600 Hekla og Geysir

Og það geri ég líka.

Reyndar mun meira en venjulega eftir skotferð til Fróns í síðustu viku. Þotur Flugleiða voru hálffullar af Kínverjum, sumum hverjum með svartar grímur. Þeir ræsktu sig allir og hnerruðu - í báðar áttir, heim og út aftur. Þeir höfðu greinilega fengið slæmt kvef við að góna of lengi á Norðurljósin á Íslandi, sem voru illsjáanleg alla vikuna.

Nú er hroði og kvika einnig farin að safnast undir Þorbirni eða Þorbjarnarfelli eins og það heitir víst líka. Maður vonar að þetta sé bara í hálsinum á Þorbirni, einhver kverkaskítur. Hann er líkast til orðinn dulítið sótthræddur með eintóma vel efnaða kórónuferðamenn í námunda við sig.

Í Danmörku er grímubann nema að í gangi sé grímuball, og má því búast við því að það sé líka þannig í fyrrverandi kólóníunni. En vaktfólk við öryggisgæslu á Keflavíkurfólki létu þó ekki Kínverja taka þessar grímur af sér og þeir ekki skoðaðir eins vel niður í kjölinn og aðrir ferðalangar.

Reyndar voru þarna ýmis afbrigði af grímum. Bláar og hvítar, en þegar stór hópur, sem nær allur bar svartar grímur, arkaði inn í Leifsstöð, runnu á mig þrjár grímur, ég skalf og kvikan fór af stað álíka og í Þorbirni.

Áður en ég legg grímuna frá mér í þetta sinn, þá heyrði ég einhvern tíman fróðan mann segja að Japanir hefðu fyrir sið að setja þessar varnargrímur á sig, frekar til að varna öðrum smiti en að verða smitaðir sjálfir. Þess vegna hristist ég allur þegar svartgrímur frá Kína gengu beint í flasið á mér. Vona ég að Kínverjar noti þessar grímur á sama hátt en Japanir.

Enn er ég ekki kominn með hita, niðurgang eða uppsölu, og býst því ekki við því að maran Svartgríma ríði mér um nætur. En maður veit þó aldrei.

Óvissustig

Það er nú einu sinni svo, að farsóttir og pestir eru nauðsynleg afleiðing hjá þjóð sem sér akk í viðskiptum við útlendinga með svartar grímur. Kínverjar færa Íslendingum þó nokkuð í tómann ríkiskassann og það fer að lokum í byggingu nýrra farsóttaspítala, þegar embættismenn eru búnir að taka fjórföld laun sín.

Alþýðulýðveldið og kapítalistaparadísin Kína er svo mikilvægt land fyrir efnahag Íslands nú, að í Leifsstöð er Kínverjum óskað gleðilegs Kínaárs og það geri ég líka. Ár rottunnar er gengið í garð. Rottan er viljasterk og máttug.

Gleðilegt Rottuár!

Leifsstöð 2020

Efst má sjá eina draumsýn helstu ferðalanga 19. aldar, Englendinga, sem létu sig dreyma um eldgos og sjóðandi hveri á Íslandi. Fornleifur karlinn festi nýverið kaup á laterna magica skyggnu frá því um 1880, án þess að spyrja mig.

Á skyggnumyndinni má sjá drauma-Heklu, Geysi og Strokk. Það vantar bara norðurljósin. Kannski hefur skyggn maður málað þarna gos í Þorbirni árið 2020. Allur pakkinn í einu alveg eins og nú og óvissustig og drepsóttir um síðir.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 396