Fyrir tveimur árum skrifaði ég um brot af litlum styttum sem sýna mittismjóa yngismær, sem oft finnast í jörðu í Hollandi, og sem nær alltaf finnast brotnar og án þess að efri hlutinn finnist. Stytturnar hafa greinilega oftast brotnað um mittið, sem var heldur mjótt.
Fyrir tæpu ári síðan sendi vinur minn í Amsterdam, Sebastiaan Ostkamp, mér mynd af toppstykki af einni mittismjórri. Hún fannst illa farin í bænum Enkhuizen. En forverðir gátu sett hana saman.
Það er ekki laust við að hún minni eilítið á ákveðna skeggjaða söngkonu með þennan drulluhýjung í andlitinu, og á það vel við að sýna hana á þessum degi, þegar Ísland gaular í Evrópukakofóníunni í Vín í kvöld.