Nú er hlaupið sport í að byggja hof ásatrúarmanna og moskur múslíma. Samkunduhús gyðinga vantar - en það mun koma - og á bæjarins bestu lóð. Lóðin mun vitanlega ekki kosta neitt, og peningarnir koma, en ekki er gott að vita hvaðan. Gyðinga- hatrið er þegar til staðar, svo menn geta sparað við sig svínsblóð og hausa.
Fyrir langa löngu skrifaði ég í DV um fyrstu trúarlegu samkomu gyðinga á Íslandi. Hún var haldin í Gúttó í Reykjavík árið 1940. (Sjá það sem ég hef áður skrifað um þann atburð hér, hér, hér og hér).
Í Gúttó söfnuðust saman flóttamenn af gyðingaættum frá Austurríki og Þýskaland. Þeir höfðu allra náðugast fengið landvistarleyfi á Íslandi, og héldu Jom Kippur, Friðþægingardaginn, hátíðlegan með breskum hermönnum sem voru gyðingar. Enginn rabbíni kom með Bretum til Íslands. Kom það því m.a. í hlut kantors (forsöngvara), Alfred Cohen frá Leeds (sem síðar breytti um nafn og hét Alf Conway og settist að í Kanada) að stjórna fyrstu trúarhátíð gyðinga á Íslandi. Alfred Cohen sést á myndinni hér fyrir neðan. Efst er hópmynd sem Sigurður Guðmundsson ljósmyndari tók af þáttakendum í Jom Kippur guðsþjónustunni 1940 og á litlu myndinni er Harry Schwab, sem ég þekkti og Bernhard Wallis frá Sheffield.
Þegar Bandaríkjamenn leystu Breta smám saman af hólmi 1941-1942, komu einnig margir gyðingar með Bandaríkjaher. Bandarísk heryfirvöld sinntu betur trúarminnihlutum herdeilda sinna en Bretar, og hingað komu prestar hinna ýmsu kirkjudeilda, sem í hernum eru kallaðir chaplains, og einnig rabbínarnir. Sumir af prestum kaþólikka og annarra kristinna kirkjudeilda komu til landsins til lengri dvalar, en rabbínarnir dvöldu aðeins stuttan tíma í senn og var flogið eða siglt með andans menn til Íslands skömmu fyrir helstu hátíðir gyðinga.
Breskir og bandarískir hermenn af gyðingaættum fyrir utan Gamla Iðnaðarskólann í Vonarstræti á Rosh Hashanah (Nýárshátíðinni) haustið 1941, nánar tiltekið 22. september 1941. Myndin er úr safni Philips Bortnicks, sem er maðurinn með loðhúfuna og loðkragann sem stendur við hlið hávaxins yfirmanns sem var herlæknir í Bandaríkjaher. Philip Bortnick hvílir hægri hönd sína á Breta sem hét Alvin Miller. Ýmsir bresku hermannanna á þessari mynd tóku einnig þátt í Jom Kippur samkomunni árið 1940. Tvo þeirra talaði ég við áður en þeir fóru yfir móðuna miklu.
Þó svo að enginn væri rabbíni væri alla jafnan einhver til að leiða bænahald bandarísku gyðinganna. Hermenn Bandaríkjanna á Reykjavíkursvæðinu, sem voru gyðingar, komu saman á ýmsum stöðum. Fyrst með Bretum í gamla Iðnaðarskólanum 1941, líklegast í Baðstofunni, útskornum gildaskála Iðnaðarmannafélagsins (sem reyndar eyðilagðist í bruna árið 1986, en baðstofan var endurbyggð eftir teikningum og myndum).
Einnig voru haldnar guðsþjónustur, shabbatsbænir, í bragga í Camp Laugarnes, sem kallaður var Men's Recreation Hut. Camp Laugarnes var norðaustan við Kirkjusand umhverfis Holdsveikraspítalann sem Bretar tóku í notkun sem herspítala. í Camp Laugarnes var haldin vikuleg guðsþjónusta kl. 19.30 á föstudögum og var það auglýst í The White Falcon:
"Jewish Faith. The Jewish Service will be held each Friday in the Men's Recreation Hut, Camp Laugarnes, at 1930 hrs."
Þegar Bandaríkjamenn voru komnir með meira lið, voru guðsþjónustur haldnar víðar, og t.d. í Elliðaárvogi Camp Baldurshaga. Um þann stað var ort:
Dear old Baldurshagi,
Oh! what a hell of a dump.
Rocks and hills all craggy,
Stulkas to slap on the rump.
If we ever leave here,
Our thoughts will wander once more,
Thoughts of building Montezuma,
On Iceland´s chilly shore.
Tekið skal fram að gyðingar slógu mikið í rassinn á íslenskum stúlkum, en einnig fóru fram shabbatbænir í spítalakampi sem var staðsettur i Ásum við Helgafell í Mosfellssveit. Þar má enn sjá stóra vatnstanka og rústir sjúkrahússins, sem gekk undir nafninu 208th general Hospital og árið 1942 var haldin samkoma í kampi sem lá við Reykjavíkurflugvöll.
Braggar undir Öskjuhlíð
Fyrsti rabbíninn sem stýrði trúarlegri athöfn á Íslandi, svo vitað sé, kom þannig á vegum Bandaríkjahers haustið 1942. Hann hét Júlíus Amos Leibert og var nokkuð merkilegur karl sem stóð fyrir nútímalegan gyðingdóm. Í næstu færslu Fornleifs verður lítillega sagt frá rabbí Leibert.
Mynd: Kantorinn Benjamin Rubenfeld (Bandaríkjaher) hámar hér í sig matzot (hin ósýrðu brauð) á Pesach Seder í Reykjavík 1942 (1. apríl 1942). Mig grunar að Sederinn hafi farið fram á Hótel Borg.