Quantcast
Channel: Fornleifur
Viewing all articles
Browse latest Browse all 396

Braggadrengirnir og Halli-stæl

$
0
0

Iðnskólinn Braggar 2

Árið 1957 kom ónafngreindur Hollendingur, fljúgandi alla leið til Íslands. Hann var liðtækur ljósmyndari, líklega fagmaður. Bölvanlegt að vita engin deili á honum. Hér er mynd sem hann tók á Skólavörðuholtinu. Iðnskólinn hafði verið reistur, en braggar voru enn á holtinu. Í þeim bjó fátækt fólk, og nú voru útlendingar meira að segja farnir að hafa áhuga á þeim.

Tveir strákanna á myndinni eru enn í fótbolta, í strigaskóm og gallabuxum, alveg eins og væru þeir klipptir út úr mynd frá yfirgefnum kolabæ í Bandaríkjunum. Hinir eru í pásu að skoða leikara,að tyggja tyggjó og stæla um hvort þeir séu indíánar eða kábojar. Kannski bjuggu þeir í bröggunum, eða í nágrenninu?

Þjóðviljinn kallaði fólk sem þarna bjó "þetta fólk" árið 1946, þegar fyrst kom til tals að flytja íbúana í aðra bragga í Fossvogi til að reisa minningarkirkjuna um Hallgrím gyðingahatara. Samkvæmt öðlingnum "Bæjargesti", sem skrifaði Bæjarpósti Þjóðviljans línu, því merka alþýðuvinablaði, þá "forpestaði" fólkið í bröggunum andrúmsloftið í Reykjavík með útikömrum. Árið 1957 var "þetta fólk" greinilega enn þarna, góðvinum öreiganna á Þjóðviljanum til lítillar gleði.

Jónasistar í Framsóknarflokknum voru hins vegar fremri Þjóðviljamönnum í hatri sínu á bröggum og fólkinu sem í þeim þurfti að húka. Forfeður fátæklinganna hafði verið barðir í sveitum landsins og nú átti "þetta fólk" ekki að vera fyrir kirkju heilags Hallgríms gyðingahatara. Braggar fóru alla tíð mjög í taugarnar á þeim sem voru svo vel í álnum að þeir þurftu ekki að búa í þeim sjálfir.

Halli StyleAllt í einu stekkur einhver spjátrungur í nýjustu, ammrísku rokktískunni inn í myndina. Við skulum kalla hann Halla. Hann hafði greinilega stúderað myndir með James Dean og Elvis. Hann er í hvítum sokkum, mokkasínum, vel straujuðum sjínóbuxum og college-jakka, líkt og hann hafði labbað inn í settið við skólavörðuna, beint frá Sunset Búlevard með smástoppi í Vinnufatabúðinni.

Ísland var á góðri leið með að verða 51. ríki Bandaríkjanna. Halli hafði greinilega uppgötvað að útlendingur var að taka af honum myndir þar sem hann var að leika sér við yngri drengi. Það mátti Halli ekki.

Ef einhver kannast við söfnuðinn þarna við klappirnar efst á holtinu, þætti ritstjórn Fornleifs kært að fá upplýsingar. Ef Halli er á lífi, er hann kominn vel yfir áttrætt. Þetta eru næstum því fornleifar.

Eitthvað held ég þessi braggar myndu kosta í endurgerð í dag, en þarna hefði ef til vill verið tilvalið að hafa Hallgrímsbar. 700 milljónir, án samninga á Dags gengi.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 396