Quantcast
Channel: Fornleifur
Viewing all articles
Browse latest Browse all 396

Í himinsæng í klaustri

$
0
0

Himinsæng2

Fornleifur er enn einu ferðina genginn í klaustur á Jótlandi. Nú húkir hann í hvítkalkaðri sellu abbadísarinnar, sem er um 7x10 metrar að flatarmáli og nærri 6 metrar að lofthæð. Ekki abbadísin, heldur sellan. Sannast sagna bjó engin abbadís svo vel, því þessu klaustri var  breytt í danskan herragarð á 16 öld og síðan þá bjó hér alltaf rassbreitt fólk, þangað til síðasta ættin dó út með áhugaverðri, lesbískri komtessu, sem hafði vit á því að ánafna staðnum þenkjandi fólki með lítil auraráð.

Ég sef hér á dimmum nóttum á svartasta Jótlandi í 130 ára gamalli himinsæng, sem sem ég leyfi ykkur að sjá, eins og þetta sé eitthvað andskotans lífsstílsblogg skrifað af draumlyndri baunaprinsessu í Garðabæ.

Ein spíran á rúmgaflinum er reyndar fallin og tjaldið eða mýflugnanetið vantar. Það kemur ekki að sök. Það stendur til bóta sagði einn ábótinn hér, sem unnið hefur á Íslandi sem fornleifafræðinemi. Brátt verður farið í viðgerðir á þessu frábæra rúmi. Mig grunar að listræn kona hafi verið hér á undan mér og æft sig í súludansi þegar hún var komin með ritkrampa eða í andlega þurrð. Í hamagangi sínum hefur hún fellt súluna. 

Rúmið góða er  ættað er úr eigu danskra baróna, sem hér höfðu bú eftir klausturtíma en græddu þar fyrir utan tá á fingri á sykri og þrælavinnu í Vestur-Indíum. Þaðan er rúmið komið frá einhverjum búgarðinum. Black Betty, sem oft er sungið um, hefur  þó ekki enn riðið mér eins og Mara í rúmi þessu, fyrir syndir gráðugra Dana, en rúmið á sér örugglega góðar minningar og heitari en fleti fölra nunnanna sem hér húktu í smá sellum í klaustri við Limafjörðinn. Dýnan er ný og þrælgóð, það er pláss fyrir að minnsta kost þrjár. Já dream on eins og Kaninn segir. Slíkar æfingar stunda ég ekki lengur. Ég sef eins og Egill forfaðir minn á Mýrum, með hita á mér, sem kemur úr forláta rafmagnshitapúða, þýskum.

Ég tek það fram að rauði knæppe-sófinn fyrir framan rúmið verður ekki notaður meðan ég er hér. Maður veit ekki hvað hefur gerst á honum.

Hér er dálítill Laxnessfílingur þegar andinn kemur yfir mann. Hér er um 6 aðrir andans menn (konur meðtaldar, sem eru líka menn nema hjá sænskmenntuðum Íslendingum), í minni "sellum", sem er útdeilt í þeirri röð sem menn koma. Þannig er vistin í sæng sykurbarónanna alls endis laus við klíkuskap og mútur. Allt fólkið er að leita að einhverju álíka og ég, eða um það bil að ljúka við handrit, þrírit eða afrit. Þannig er nú það. Amen að sinni.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 396