![Jens Björgvin Pálsson Jens Björgvin Pálsson]()
Ég hafði vart lokið færslunni hér á undan um sagnfræðilega ónákvæmni Veru Illugadóttur í útvarpsþætti, en að ég þurfti aftur að ”stinga niður penna” til að rita um óvenju grófa ónákvæmni föður hennar, hins landsþekkta meiningarmanns um allt milli himins og jarðar, Illuga Jökulsson.
Illugi var síðla kvölds hins 3. september sl. með þáttinn Frjálsar Hendur og valdi hann að segja sögu dæmds íslensks landráðamanns, Jens Pálssonar, njósnarans á frystiskipinu Arctic. Fornleifur hefur gert því skipi skil áður (sjá hér).
Það sem Illugi las upp var sagan eins og Jens Pálsson óskaði að hún yrði sögð. Nóg hefur nú heyrst af rugli um ferðir Arctic, en Illugi lék vægast sagt af fingrum fram sem miðill Jens Pálssonar það kvöldið. Hlustið á söguna hér.
Sá galli er á gjöf Njarðar, að saga Jens Björgvins Pálssonar í þeirri útgáfu sem útvarpshlustendur heyrðu, stangast verulega á við þá sögur sem hann sagði Bretum árið 1942 og undirritaði til staðfestingar. Jens viðurkenndi glæp sinn en hafði einnig verið margsaga hjá Bretum, líkt og menn sem margsaga eru dæmdir þyngri dómum í sakamálum á Íslandi í dag.
Gögn um Jens Pálsson eru til á skjalasöfnum erlendis og hann gerði sér greinilega ekki grein fyrir því að þau yrðu aðgengileg þegar byrjað yrði að miðla af endursagðri sögu hans af segulbandi að honum látnum, en Jens lést árið 2000. Illugi Jökulsson hefur ekki gert sér far far um að rannsaka þá sögu sem önnur gögn en íslensk segja. Illugi skrifar stundar einvörðungu það sem Danir kalla andedamshistorie sem útleggst gæti sem heimalningasagnfræði. Þar líta menn sjaldan á heimildir nema í heimalandi sínu. En við erum nú öll hluti af stærra heimi.
Í yfirheyrslugögnum um Jens má ljóst vera, að hann tók að sér njósnir fyrir nasista og var í sambandi við íslenska nasista þegar heim var komið frá Spáni og veðurskeyti höfðu verið send frá skipinu á tækum sem þýskir njósnarar höfðu komið fyrir í skipinu og sem Jens vann við. Jens koma á kreik sögum um barsmíðar á sér á Íslandi og á Englandi, þar sem hann var hafður í haldi til ágústmánaðar 1945. Engar af þeim sögum er hægt að staðfesta. Jens fékk af öllu að dæma góða meðferð hjá Bretum, og fékk meira að segja að svara spurningum með því að skrifa svörin.
Jens var illa þokkaður af öðrum skipverjum Arctic
Samferðamönnum hans á Arctic var langt frá því að vera hlýtt til Jens Pálssonar. Íslenskur sagnfræðingur hefur þetta eftir mönnum sem unnu með Guðna Thorlacius á skipinu Hermóði og lýstu því þegar Jens Pálsson reyndi að fara um borð í Hermóð þar sem skipstjóri var enginn annar en Guðni Thorlacius, afi forseta Íslands, en Guðni skipstjóri hafði einnig verið í áhöfn Arctic (sjá hér):
Kannski áleit hann sig tilneyddan, kannski var honum ekkert á móti skapi að aðstoða nasistana. Hvað veit maður. En ég held að ég hafi skrifað þér sögu Sigurjóns Hannessonar heitins (hann lést í sumar) af því þegar Jens hugðist ganga um borð í Hermóð á Austfjörðum þar sem hans gamli stýrimaður af Arctic, Guðni Thorlacius, réð ríkjum. Guðni lét hindra að Jens kæmist um borð og hafði um hann ill orð, sagði Sigurjón, en slíkur talsmáti mun annars hafa verið sjaldheyrður hjá honum. Það sögðu mér kallar sem ég var með á Árvakri og höfðu verið hjá Guðna. Og þá var nafni hans bara grunnskólapiltur og áratugir í að hann yrði forseti þannig að ekki var verið að smjaðra fyrir honum né neinum öðrum. Kannski var Guðni fyrst og fremst reiður Jens fyrir að hafa logið að honum og öðrum í áhöfn Arctic og komið þeim í vandræði. Ekki veit ég, en aldrei heyrði ég um Guðna talað öðruvísi en af virðingu. Og það átti ekki við um alla skipherra Landhelgisgæslunnar að þeir fengju slíkt umtal af skipsmönnum.
Þegar lesnar eru skýrslur af áhafnarmeðlimum á Arctic, sér maður reginmun á þeim sem teknar voru af saklausum mönnum og þeim seku.
Þetta getur Illugi kynnt sér í stað þess að lýsa svaðilförum úr síðari heimsstyrjöld beint út úr höfði Jens Pálssonar. Sumir menn álíta greinilega síðari heimsstyrjöld hafi verið eins konar fótboltaleikur, þar sem ljótt var að spila af hörku. Athæfi Jens og hugsanlega skipstjórans, sem ekki var drepinn um borð á herskipi líkt og Jens lét ávallt í veðri vaka við viðmælendur á Íslandi, heldur andaðist á sjúkrahúsi í London úr krabbameini ári eftir að hann var fluttur til Englands, gat hafa leitt til dauða saklausra sjómanna.
Smekkleysa Illuga
Í ótrúlegum auðtrúnaði gefur gefur Illugi í skyn að Sigurjón Jónsson hafi dáið skyndilega eftir að hann var sendur til Englands 1942, og jafnvel að krabbameinið sem dró hann til dauða hafi orsakast af illri meðferð hjá Bretum. Reyndar er það rétt að Sigurjón dó, en ári síðar en Illugi heldur, eða 1943.
Illugi lét eftirfarandi orð falla í þættinum Frjálsar Hendur í framhaldi af frásögn um flutning fjögurra áhafnarmeðlima Arctic til Bretlandseyja:
Hinn 13. júlí brá svo við að Sigurjón Jónsson andaðist á sjúkrahúsi - í London. Banamein hans var krabbamein. Það sögðu Bretar – að minnsta kosti. Víst hafði Sigurjón verið veikur. Það hafði víst ekki farið milli mála. En hafði ömurlegur aðbúnaður hans í fangavistinni haft áhrif á skyndilegan dauðdaga hans. Ekki sögðu Bretar. En þeir voru líka einir til frásagnar.
Illugi gleymir bara að segja hlustendum sínum og lesendum komandi hasarbókar sinnar, sem væntanlega á að setja undir tréð um jólin, að Sigurjón andaðist ekki árið 1942 á sjúkrahúsinu í London, heldur sumarið 1943. Fjöldi gagna er til um sjúkdóm hans og sjúkralegu. Dauðdaginn var ekki eins skyndilegur líkt Illugi vill láta í verðri vaka.
Sigurjón Jónsson skipstjóri. Myndin efst er af Jens Pálssyni.
![Um Jens Pálsson 2 Um Jens Pálsson 2]()
Upplýsingar um heilsu Sigurjóns í byrjun júní 1943 (efst) og í júlí sama ár (neðar). Vill Illugi trúa landráðamanni eða þessum skjölum?
![SJ 4 SJ 4]()
![SJ 5 SJ 5]()
Þessi aulasagnfræði Illuga er forkastanleg og dæmir Illuga úr leik. Honum ber að stöðva bók sína, þar sem þetta lítilfjörlega efni verður útlistað, áður en þessi vitleysa hjá honum kemst á prent. En kannski vilja Íslendingar einmitt helst lesa lognar sögur og fá annan endi á mál heldur en þau sem t.d. dómstólar komust að?
Ef hörku var beitt af Bretum við yfirheyrslu á áhöfn Arctic, er það alls ekki óskiljanlegt. Ef til vill orsakaðist barningur bandarískra hermanna og breskra yfirmanna á t.d. Guðna Thorlacius af lygaframburði Jens Pálssonar. En furðulegt er að ekki má ekki sjá marblett á andliti nokkurs í áhöfn Arctic sem Bretar mynduðu í Reykjavík áður en þeir voru sendir utan. Bretum varð fljótt ljóst hverjir voru þeir seku um borð á Arctic voru, og útilokuðu t.d. nær strax Guðna Thorlacius sem var fljótt farinn að túlka fyrir þá, því hann var heiðursmaður og betri í ensku en margir hinna.
![Arctic á Skotlandi 1942 Arctic á Skotlandi 1942]()
Arctic við strendur Skotlands
Gyðingar með demanta dregnir inn í sögu Jens
Frásögn sú sem Illugi las fyrir Jens Pálsson látinn í útvarpi um daginn var á allan hátt afar ógeðfelld. Sagan um gyðinga hlaðna demöntum sem Illugi las fyrst, sem áttu að vera að skemmta sér á hóteli í Vigo, á Spáni er ósómi af verstu gerð. Ætti Illugi eingöngu út frá henni að gera sér grein fyrir því að maðurinn sem segir söguna var enn nasisti þegar hann las sögu sína inn á band. Illugi gerir sér grein fyrir því að óhróðurinn sem Jens setur í munn Sigurjóns skipstjóra um demanta gyðinganna frá Berlín, sé furðuleg saga, en fer svo í staðinn að fabúlera um franska gyðinga og réttlætir söguna að lokum.
Franskir gyðingar komust aldrei frá Vigo til Bandaríkjanna en í einstaka tilfellum árið 1942 komust þýskir gyðingar til St. Louis en ekki með hjálp demanta heldur á síðustu eignum sínum. Örfáir gyðingar frá Þýskalandi fóru með spænskum skipum frá Vigo til New Orleans árið 1942.
Þjóðverjar höfðu rænt flestum eigum af því flóttafólki sem náðu til Spánar og Portúgals. Reyndar segir Jens Pálsson frá gyðinga sem urðu á vegi hans á hóteli í hafnarborginni Vigo. Hann sagðist við yfirheyrslur á íslensku sem þýddar voru yfir á ensku hafa hitt mann, líklega gyðing, Felix Zevi að nafni sem sagðist vera frá Zurich í Sviss. Zevi var um borð í skipi sem hafði verið kyrrsett, og var það eina skipið sem vitað er að hafi flutt gyðinga frá Vigo til Bandaríkjanna, samkvæmt upplýsingum sem ég hef grafið upp. Skjöl um þetta hefði almennilegur sagnfræðingur átt að geta fundið. En Illugi er nú einu sinni ekki sagnfræðingur. Hann er að selja bók sína í útvarpsþætti sem greiddur er fyrir afnotagjöld íslensku þjóðarinnar.
Svo lýkur Jens frásögn sinni af flóttafólki með safaríkri sögu er hann brá sér í land um áramótin 1941-42 i eina af sínu mörgu heimsóknum á hórukassa Vigo. Þessi greinargerð hans árið 1942, sem var þýdd yfir á ensku úr íslensku, var á allan hátt mjög frábrugðin því sem Illugi Jökulsson hafði eftir Jens í þættinum Frjálsar hendur hér um daginn.
![Jens Pálsson og hóran Jens Pálsson og hóran]()
Úr afriti af skýrslu undirritaðri af Jens Pálssyni
Jens Pálsson var enn haldinn fordómum nasista rétt fyrir andlát sitt. Með tilbúningi og óhróðri um gyðinga og demanta þeirra setur hann eftirfarandi orð um gyðinga á hóteli í Vigo í munn látins mann, Eyjólfs Jónssonar Hafstein (d. 1959) sem var annar stýrimaður á Arctic. Takið efir því að Jens reyndi ávallt að koma skoðunum sínum og gerðum á aðra menn:
... og ég man að Eyjólfur sagði í glensi að í þessum sal væri nú að minnsta kosti hálf smálest af demöntum. Er ég nú ekki að fjöryrða um það. Þetta fólk var að halda eitthvað hátíðlegt sem ekki var okkar, svo við yfirgáfum hótelið og átum pínusíli og soðin egg á pínubar. Næsta dag voru skemmtiferðaskipin farin til New York.
Þegar farið er að segja endurunna frásögn Jens Pálssonar, dæmds landráðamanns, 75 árum eftir að Jens Pálsson loftskeytamaður á Arctic var til í að njósna fyrir nasista, með endursögn sem stangast á við það sem hann sagði við yfirheyrslur, er sagnfræðin orðið heldur lítils virði. Enginn almennilegur sagnfræðingur myndi láta frásögn Jens standa eina.
Það sem gyldir er Sagan Öll, Illugi, og ekkert annað en sagan öll, en ekki skekkt og skrumskæld útgáfa hennar. Ef þörf er á að koma neikvæðum tilfinningum sínum í garð Breta og Bandaríkjamanna til skila, er hægt að gera það á annan hátt en með samanburði í sögu íslenskra njósnapésa.
Fólk sem tekur málstað hryðjuverkamanna sem teknir hafa verið af Bretum og Bandaríkjamönnum á síðustu árum og fárast yfir aðferðum þeirra við yfirheyrslur á glæpamönnum, í stað þess að hugsa út í þær hörmungar sem hryðjuverkamennirnir hefðu geta valdið, mun ef til vill aldrei nokkurn tímann skilja að hryðjuverkamenn og njósnarar fyrir erlend öfl eru ómerkilegar raggeitur sem oftast nær hugsa ekkert um aðra en sjálfa sig – og er skítsama um líf saklauss fólks.
Við höfum séð mikinn fjölda sjálfskipaðra dómara á Íslandi á síðari árum, sem telja sig megnuga þess að sýkna menn af morðdómum um leið og þeir fara hamförum þegar kynferðisglæpamenn fá æruuppreisn. Þessi mjög hlutlæga tilraun Illuga til að hreinsa mannorð Jens Björgvins Pálssonar svipar til þessa furðulegu strauma á Íslandi, enda hefur Illugi ekki ósjaldan verið í hæstaréttardómarasæti götunnar. En þetta er ekki sagnfræði og þaðan að síður góð lögfræði. Illugi er að selja bók á ríkisfjölmiðli, og honum er greinilega slétt sama um hvort hún sé full af rangfærslum.
Læknaðist Jens af staminu?
Að lokum langar mig að nefna, að gott er heyra og lesa, að Jens Björgvin Pálsson læknaðist af staminu sem hrjáði hann er hann var fangi Breta 1942-45.
Hann gat hins vegar hiklaust tjáð sig um þá sögu sem Illugi Jökulsson leyfir okkur að heyra. Enn kannski fengum við einmitt ekki að heyra upptökuna með Jens, vegna þess að Illugi telur ekki við hæfi að láta menn stama í útvarpið. En hér að neðan geta menn svo séð, skjalfest, hvernig greint var frá þessari fötlun mannsins árið 1945.
Jens stamaði hins vegar ekki hið minnsta í lýsingum sínum af nánum samtölum sínum við þýska nasista á Spáni og meinta gyðinga á hótelum í Vigo. Sumir menn geta bara ekki stamað á þýsku.
![Um Jens Pálsson Um Jens Pálsson]()