Það verður víst aldrei hægt að halda því fram að ásjóna Kristjáns 6. Danakonungs hafi verið ígurfögur. Blessaður maðurinn var svo óheppinn að eiga föður, Friðrik 4. (sjá hér í tímaritinu Skalk;6, 2015) sem einnig var óvenju ófríður.
Friðrik 4. var afsprengi mjög svo skyldleikaræktaðrar fjölskyldu, Aldinborgaranna (Hustet Oldenburg). Kona Friðriks, var þýsk aðalskona, Louise af Mecklenburg-Güstrow, var einnig sæmilega heimaræktuð. Það varð því að fara eins og það fór með Kristján sjötta, sem sat á konungsstóli frá 1730 til 1746.
Ekki var drottning Kristjáns, Sophie Magdalene af Brandenburg-Kulmbach minna spes. Dönsku hallirnar voru þannig í hans stjórnartíð fullar af blúndum og háhæluðum skóm og fólki sem tiplaði um langa gangana og talaði bjagaða þýsku, ef það rak ekki úrkynjuð nef sín niður í kaffibollann - og það ekki fyrir slysni.
Kóngur hélt sig mest heima, í og við hallir sínar, og sást sárasjaldan meðal fólsins. Þó er vitað að hann brá sér í skemmtiferð til Noregs. Hann fór í "fjallgöngu" líkt og tveir forfeður hans. Kona hans og tengdamóðir voru bornar í burðarstól upp á fjallið á Mannseidet. Á málverkinu neðst við þessa fræðslu má líklega sjá norskt landslag - en það getur líka í tilefni dagsins verið íslenskt, þó konungur hafi aldrei til Íslands komið - en það gæti málarinn hugsanlega hafa gert.
Ekki jók konungur á frægð sína er hann innleiddi vistarbandið í Danmörku árið 1733 eftir þrýsting frá síðgráðugum landaðlinum
Ljósmyndina efst tók ritstjóri Fornleifs í sumar í Frederiksborgarhöll í Hillerød Sjálandi, sem í dag hýsir Nationalhistorisk Museum. Þetta er vaxmynd sem geymd er þar í glerkassa. Mun hún hafa sýnt konunginn á mjög sanngjarnan hátt. Hann var með svokallaðan Habsborgara-kjálka, reyndar vægt tilfelli af honum. Habsborgarakjammi, lýsir sér miklu undirbiti og er hann ein af afleiðingum skyldleikaræktar meðal kóngafólks og aðals í Evrópu og víðar, sem ekki gat hugsað sér að kvænast niður fyrir sig og valdi í staðinn að leggjast á ungar frænkur sínar - ef frændurnir urðu ekki fyrir barðinu.
Já hann var það sem danir kalla arveligt belastet. Kristján 6. var einnig með furðulegt nef, langt mjótt og bogið, sem neðst endaði í eins konar goggi. Slík nef eru einnig afleiðing þeirrar eðalseðlunnar sem tíðkaðist í hærri lögum þjóðfélaganna fyrr á öldum.
Kristjáni 6. er lýst sem hlédrægum manni, jafnvel feimnum á stundum og óframfærnum. Hann var því ekkert líkur föður sínum hvað það varðar. Stundum er talað um hann sem þunglyndan og innhverfan. Hann var þó vel meðvitaður um vald sitt og efldi það með ýmsum ráðum. Hvað Ísland varðar var hann hjálendunni ekki allt of mikið til ama. Hann var hreintrúarstefnumaður (píetisti) en píetisminn haslaði sér völl í lútherismanum á þeim tíma sem Kristján var uppi.
Á Íslandi hafði hreintrúarstefnan m.a. í för með sér lögfestingu ferminga. Þær urðu frá og með 1736 skylda. En píetisminn í hans tíð varð einnig til þess að gleðin hvarf úr ríki konungs. Kristján lét banna allar skemmtanir á sunnudögum og árið 1735 gaf hann út helgidagtilskipun þar sem kirkjusókn varð skylda. Gapastokkur beið þeirra sem brutu öll þessi helgilög.
Hallarbyggingar og önnur óþarfa eyðsla til lystisemda konungs tæmdi danska ríkiskassann (sem kóngsi stjórnaði að vild). Kristján konungur lagði því mikið kapp á að krefja tolla af öllum þeim sem sigldu um Eyrarsund, en þar fyrir utan stofnaði hann seðlabanka, Kurantbankann sem var forveri Nationalbanken (danska Seðlabankans). Framleiðsla á pappírspeningum hófst, og jókst mjög líkt og stundum gerist þegar verðbólga skapast og menn leika sér með núllin. Það má Íslendingum vera kunnugt.
Nær öll áðurgreind hegðun og afbrigðilegheit, nema fjallgöngur, gerir kónga óvinsæla eins og við vitum úr ævintýrum. Kristján barðist þó ekki við skrímsli á Fjöllum, svo vægi fjallgöngu hans var lítið. Ugglaust var hann með svima alla leiðina upp.
Trúræknin rak hann vafalaust til þess að halda þræla.
Einhverja bónuspunkta fær Kristján með skúffukjammann þó hér í lokin fyrir að vera fyrsti danski einvaldurinn um langt skeið, sem ekki stóð í endalausum stríðsrekstri. Hann ætlaði sér reyndar í stríð við Svía árið 1743, en sá að sér er Rússar blönduðu sér í erfðamál sænsku krúnunnar.
Munið þó, að flagð er oft undir fögru skinni. En sjá, var hann ekki líka þrælahaldari, bölvaður. Niður með hann og brennum ásjónu hans að fyrirmynd band-arískrar hámenningar ...