Vissuð þið lesendur góðir, að tveir bandarískir hermenn á Keflavíkurflugvelli lentu í miklu basli vegna þess að þeir léku í kvikmyndinni 79 af stöðinni árið 1962? Líf hermannanna var að ákveðnu marki lagt í rúst. -
Nei, auðvitað vitið þið ekkert um það; Og hvernig ættuð þið svo sem að vita það? Nöfn þeirra eru meira að segja enn rituð rangt á öllum listum yfir leikara myndarinnar, þótt einn þeirra hafi sannast sagna verið mun betri leikari en Gunnar Eyjólfsson.
Hér verður borin fram stór og mikil kvikmyndfornleifafræði-langloka. Fyrir þá sem eru fyrir litlar og lummulega samlokur með miklu gumsi og stóryrðasalati, þá gæti þetta orðið erfið lesning. Það verður farið vítt og breitt og til allra átta.
Þessi lestur er því ekki fyrir óþolinmótt fólk sem ekki getur lesið nema eina málsgrein án þess að leggjast í rúmið af kvölum. Reynt hefur verið að létta lesturinn með mörgum myndum og tónlist.
Sagan byrjar í Árósum
Sagan byrjar fyrir minna en mánuði síðan, í lok júlímánaðar 2020 í Árósum, næststærstu borg Danmerkur.
Árósar voru þá ekki búnir að hljóta hina vafasömu útnefningu Smittens By í stað gamla gælunafnsins Smilets By sem bærinn gengur jafnan undir, án þess að nokkur viti af hverju.
Ég og litla fjölskyldan mín vorum í heimsókn í Árósum hjá mágkonu minni, sem býr í gömlu húsi í miðbæ Árósa, rétt norðan við árósinn (sem er reyndar aðeins einn), sem bærinn hefur hlotið nafn sitt af.
Snemma morguns læddist ég og kona mín út til að ná í morgunbrauð í góðu bakaríi á horni Badstuegade og Rosengade, þar sem á okkar skólaárum var ágætt missjónskaffihús, þar sem áfengi var úthýst og jafnvel heiðingjum líka.
Þegar ég sit á dyrapallinum og er að fara í skó, heyri ég einhvern opna hurðina á hæðinni fyrir ofan og ganga niður. Ég vík vel fyrir eldri manni á tröppunni til að halda allar COVID-19 siðareglur. Maðurinn var að fara út eins og við og líklega til að kaupa inn eða ná sér í dagblað.
Ég virði manninn aðeins fyrir mér og heilsa honum fyrir kurteisi sakir. Þegar konan og ég erum líka komin út, hef ég strax á orði að maðurinn komu kunnuglega fyrir sjónir. Ég taldi mig muna andlit hans frá Árósaárum mínum (1980-1993). Frú Irene fussaði og tók þessu fálega eins og einhverju karlagorti.
Þegar við snúum aftur úr verslunarferðinni er mér litið á nafnskiltið á jarðhæðinni. Þar sé ég, að á hæðinni fyrir ofan systur konu minnar, býr maður maður sem heitir Arne Abrahamsen. Það kveikir strax á perunni, því hann hef ég hitt og vissi hver hann var.
Abrahamsen kom við á Stöng í Þjórsárdal í ágúst 1984, þegar ég og aðstoðarmaður minn Einar Jónsson, vorum að grafa nokkur snið í skálarústirnar þar. Hann kom í fjögurra manna hópi sem var að gera sjónvarpsmynd fyrir DR (Danmarks Radio) sem er systurstofnun RÚV í Danmörku.
Einar Jónsson við teikningu um það leyti sem Arne Abrahamsen kom í heimssókn á Stöng. Ljósm. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson.
Titill myndarinnar, sem var sýnd um haustið árið 1984, var En rejse til Island i Martin A. Hansen og Sven Havsteen-Mikkelsens Hjulspor. RÚV hafði útvegað danska liðinu stóran Land-Rover jeppa gegn því að myndin yrði síðar send að kostnaðarlausu í íslenska sjónvarpinu.
Ég sá aðeins lítið brot af þættinum haustið 1984 í litlu svart-hvítu sjónvarpi sem ég átti á þeim tíma, er ég bjó í lítilli einstaklingsíbúð á stúdentagarði í úthverfi Árósa.
Þegar kona Arne Abrahamsens hafði verið mikið veik á sjúkrahúsi í vetur, færði mágkona mín honum mat, og fyrir það var hann henni mjög þakklátur. Þegar við vorum komin heim eftir Árósaför setti Birgitte mágkona mín mig strax í samband við Abrahamsen.
Arne varð ekki lítið glaður yfir því að ég hefði þekkt hann eftir 35 ár eða tengt hlutina svona hratt saman. Hann skrifaði mér strax þegar hann hafði heyrt söguna frá Birgitte, og minningarnar voru margar.
Hann sendi mér handrit að tillögu að þættinum sem hópurinn hafði notað árið 1984 og ég er búinn að lofa að sækja hann heim næst þegar ég kem til Árósa, til að sjá með honum þáttinn, sem hann á diski.
Arne og 79 af Stöðinni
Fyrir utan ferðalög danska þáttargerðafólksins á Íslandi árið 1984, langaði Abrahamsen greinilega að segja mér frá frægðarför sinni til Íslands á yngri árum sínum.
Ég varð aðeins á undan, þar sem ég var búinn að njósna um hann á Google. Þar hafði ég þegar séð að hann hafði einnig verið 2. ljósmyndari við kvikmyndatökur á 79 af Stöðinni, skáldsögu Indriða G. Þorsteinssonar, sem var kvikmynduð eftir handriti Guðlaugs Rósinkranz, sem var í forsvari fyrir íslenska kvikmyndafélaginu Saga-Film. Myndinni var leikstýrt af Erik Balling, sem síðar var meðal fremstu kvikmyndaleikstjóra Dana.
Ljósmynd sem Arne Abrahamsen sendi mér og sem sýnir hluta af teyminu sem vann við tökur á 79 af Stöðinni. Abrahamsen situr í neðstu röð lengst til hægri.
Gamla manninum líka gott að sjá, að hann væri ekki alveg gleymdur í tengslum við 79 á stöðinni. Erik Abrahamsen var vinnan í tengslum við myndina á Íslandi greinilega mjög minnisstæð og nefndi hann í því samhengi í tölvupósti sínum að í myndinni hefðu leikið tveir Bandaríkjamenn af Vellinum, sem hefðu verið látnir fjúka úr flotanum fyrir að hafa tekið þátt í gerð myndarinnar. Það voru fréttir fyrir mig. Nú kviknaði áhugi yfirritstjóra Fornleifs, sem aldrei þótti mikið til 79 af stöðinni eða Indriða G. Þorsteinsson koma. Ég man þegar ég sá myndina fyrst í Sjónvarpinu árið 1970. Mér þótti hún leiðinleg og langdregin.
Pigen Gogo var kanamella
Fyrst verður að minna á að Gógó Faxen, sem Kritbjörg Kjeld lék, var ekki beint nein óspjölluð jómfrú, heldur vel þroskuð kona sem samkvæmt íslenskum lýð hafði framið einn versta glæp sem sögur fóru af á Íslandi, áður en Íslendingar uppgötvuðuð barnaníðinga, rotna útrásavíkinga og fóru að sýkna morðingja í löngum bunum í hreinum leiðindum sínum.
Kvikmyndin 79 af stöðinni var fyrsta alvöru kvikmyndin sem alfarið var kvikmynduð á Ísland, fyrir íslenskt fé, var eins og áður segir framleidd í Danmörku af danska leikstjóranum Erik Balling. Félagið Saga-Film var stofnað til að halda utan um myndina og til að kría fé út úr íslenskum fjárfestum. Fyrir því félagi fór Gunnlaugur Rósinkranz.
Greint var frá myndinni í dönskum vikublöðum sumarið 1962. Myndin er vinsamlegast send mér af Arne Abrahamsen
Indriði G. Þorsteinsson var höfundur bókarinnar sem verkið byggði á, en hann lét að Gunnlaug Rósinkrans um að útbúa leikbúning þess. Hinn nýlátni tónlistastjóri Bent Fabricius-Bjerre, sem þekktastur mun vera fyrir titillagið í Olsen Banden myndunum, stjórnaði hljómsveitinni dönsku sem lék tónlist Jóns Sigurðssonar og Sigfúss Halldórsson með glæsibrag. Þetta var á Íslandi talin vera "alíslensk" klassamynd fullsett fyrirtaks dönsku kvikmyndafólki sem eftir var að gera það gott í Danmörku og DDR. Á dönsku fékk myndin heitið Pigen Gogo. Hún var sýnd í Danmörku, en aldrei fyrir fullum sölum þar frekar en í Svíþjóð þar sem hún var einnig á prógramminu.
Ég man helst hve leiðinlegur eltihrellir Gunnar Eyjólfs (Ragnar á leigubílnum) var; Og svo man ég að Ómar Ragnarsson var statisti í myndinni eins og Dr. Gunni hefur svo smekklega bent á í einni af doktorsritgerðum sínum:
Þetta er annars nokkuð fyndin mynd, þá aðallega því það er svo gaman að sjá allt í gamla daga. Flosi og Bessi Bjarnason eru þarna ungir og hressir í leigubíl og Ómar Ragnarsson sést snarvitlaus í nokkrar sekúndur káfa á brjóstunum á einhverri dömu á leigubílastöðinni.
Að sögn Ómars sjálfs tók um tvo tíma að taka leik hans upp, en mestmegnið af því var klippt í burtu. Súrt sjóv það
Tvö af tíu andlitum Ómars, sem hann sýndi þjóðinni í Fálkanum árið 1962. Hann var hins vegar eins og hvutti í 79 á stöðinni.
Ég verð líklega einnig að láta Dr. Gunna lífga upp á minni mitt og neytenda langloku Fornleifs, hvað innihald myndarinnar varðar - þó svo að Dr. Gunni sé merkilegt nokk mér miklu yngri maður. Hann gerir það alveg listavel og nú man ég allt um 79 af Stöðinni og meira til.
Dunhagi 19 nú á tímum - og sumarið 1962. Arne Abrahamsen sendi mér neðri myndina sem birtist í B.T.
Horfði aftur á 79 af stöðinni til að endurnýja kynnin við fræga nágrannahurð mína hér á Dunhaganum [Viðb. Fornleifur: umræddar dyr voru á íbúð Gunnlaugs Þórðarsonar og frú Herdísar Þorvaldsdóttur]. Þetta er sögulega mikilvæg hurð því Ragnar á leigubílastöðinni hangir á henni lon og don til að komast inn til Gógó Faxen sem býr fyrir innan.
Gógó er í ástandinu og þegar Ragnar kemst að því verður hann brjálaður sem von er og ekur til mömmu sinnar í sveitinni (því þar er lífið, ekki í solli borgarinnar, skv. gildum myndarinnar og Indriða). Það endar ekki betur en svo að hann keyrir út af og deyr. Sem betur fer hafði Ragnari tekist að njóta ástarmaka við Gógó nokkrum sinnum áður. Kynlífsatriðin hafa eflaust valdið umtali 1963, en virka í dag ísköld og máttlaus, enda liggur Gunnar Eyjólfsson hreyfingarlaus ofan á Kristbjörgu Kjeld eins og hraðfrystur nautaskrokkur.
Yndislegt. Dr. Gunni má eiga það, að hann getur peppað upp óáhugaverðugustu söguþræði, en hann geri sér þó ekki grein fyrir því að "ástandið" var aðeins í gangi á stríðsárunum. Áður en menn gera allar konur að "Kanamellum" í ástandi, er vert að muna að eftir stríð völdu margar íslenskar konur Bandaríkjamenn fram yfir Íslendinga. Af hverju voru þær afgreiddar sem billegar dræsur af Íslendingum? Hrokakarlar telja sig eiga konur og eru því alltaf hræddir við útlendinga.
Um Kanamellur
En samúð Fornleifs er hins vegar öll hjá dátum og meintum Kanamellum en ekki hjá herforingjum, vængbrotnum íslenskum sveitarasistum og heimalningum, eða þeim Íslendingum sem fengið höfðu þá flugu í hausinn að Bandaríkjamenn væru á Íslandi til frambúðar fyrir Íslendinga - þeim sem fengu áfall hér um árið þegar Verndarinn fór bara!
Ég kenni þó alltaf dálítið til með Ómari R, sem notaði svo mikinn tíma í upptökur á 79 af Stöðinni við að gramsa á brjóstum kvenna suður á Velli.
En það er að "Kanamellur" hafa verið krossfestar af skyldleikaræktuðum lýð, sem ekki gerðu sér grein fyrir að konur sem "fóru í Kanann" voru ósjálfrátt að reyna að flikka upp á illa slitið genamengi Íslendinga.
Mannaval á Íslandi leiddi meðal annars til "ástands".
Kanarnir í 79 á Stöðinni og hefnd Sáms frænda
Á lista yfir leikara kvikmyndarinnar kemur fram að í henni hafi leikið tveir Bandaríkjamenn, John Tasie og Lawrence Schnepf.
Við vinnslu myndarinnar í Kaupmannahöfn, eða jafnvel fyrr, hefur einhverjum orðið á í messunni. Eftir þó nokkra leit mína að þessum mönnum og örlögum þeirra í BNA kom í ljós að þeir hétu í raun John D. Tacy (1926-1984) frá Lawrence í Massachussets og Lawrence (Larry) Win Schneph frá bænum le Mars i Iowa.
John Tacy lék byttuna Bob með miklum tilþrifum í 79 af Stöðinni. Svo góður þótti leikur Tacys, sem ranglega var kallaður Tasie, að tekið var við hann hann viðtal í gamla Vísi í águst 1962, sjá hér.
John Tacy
Myndin sem hafði fengið metaðsókn á Íslandi, spilaði sig inn á nokkrum vikum á Íslandi, þar sem þúsundir manna sáu hana í Háskólabíó og Austurbæjarbíói. Í Danmörku gekk hún ekki eins vel.
En mesta athygli hlaut myndin væntanlega í Bandaríkjunum. Það var greint frá efni hennar í tímaritinu Variety. Endursögn á innihaldi greinarinnar var t.d. í Daily News í New York 26. apríl 1963:
Umsögn Variety, og jafnvel kvikmyndin sjálf, hleyptu illu blóði þingmann fulltrúardeildar bandaríska þingsins, Frank J. Becker frá New York, sem var harðkristinn repúblíkani af þýskum ættum. Eftir síðara stríð létu slíkir menn góð bandarísk gildi og ameríska þjóðerniskennd mjög til sín taka. Greinin í dagblaðinu Daily News í New York þann 26. apríl 1963, lýsir vel hvernig Becker og skoðanabræður hans á hægri vængnum í BNA litu á myndina, þó þeir hefðu örugglega aldrei séð hana. Becker hunsaði líka upplýsingar flotans sem komu frá manni sem varð heimsfrægur sem talsmaður hers BNA í Víetnam:
The Variety review said the movie was lousy anyhow but that the appearance of the American ”officers” had made the front pages in the Swedish Press. The Navy reexamination of the affair followed receipt of Becker´s letter.
Assistant Defense Secretary Arthur Sylvester said that he did not have the name of the information officer who asked for, but never received a copy of the script. But Sylvester said Lt. (j.g) Lawrence W. Schnepf, then an ensign, and Electrician’s Mate 1 Cl. John Tracy had obtained permission and appeared as actors in the film.
Schnepf, a reservist, will complete his active duty tour in June, Sylvester said, while Tacy is a career enlisted man. Sylveser said the information officer had been assured there was nothing derogatory in the script.
Becker, sem eins og margir kanar ruglaðist á Svíþjóð og Danmörku, taldi hins vegar myndina koma ljótu orði á Bandaríska herinn og að hermennirnir væru eins konar föðurlandssvikarar þar sem þeir hefðu leikið erindreka lands síns í einskennisbúningi sem fyllibyttur (Tacy) og kvennaflagara sem eltust við íslenskar stúlkur og jafnvel eiginkonur (Larry).
Becker þessi var maður sem var vanur að taka til sinna ráða. Hann kom því til leiðar að bandarísku hermennirnir sem léku með í 79 af Stöðinni (Gogo the girl) var úthýst úr bandaríska hernum. Gaman væri að fá frekari upplýsingar um það. Sjá frekar um málið hér.
Danska blaði BT og sænsk blöð greindu frá þessum snörpu viðbrögðum í Bandaríkjunum, sem ritað var þó nokkuð um í BNA. Í kjölfarið voru Morgunblaðið og Alþýðublaðið með fréttir af málinu.
Viðbrögð Indriða G. Þorsteinssonar
Miðað við þá þekkingu sem maður hefur á framsóknarmanninum Indriða, sem fæddur var árið 1926 og sem síðar á ævinni var mjög utarlega til hægri í skoðunum, þá sýnist mér að Indriði hafi samt, líkt og margir Íslendingar haft frekar loðnar kenndir til erlends hers á Íslandi. Þó voru viðbrögð Indriða nokkuð sérstök. Í nýrri blokkíbúð sinni norðarlega í Stóragerði í Reykjavík tók hann sig til og ritaði Frank J. Becker þingmanni. Það kom fram í Mbl. 27. apríl 1963.
Þessu skrif Indriða til repúblikanans Becker lýsa hugsanlega manngerð Indriða, sem var blanda af rithöfundi, ritstjóra, leigubílstjóra, sveitapilti sem varð að götustrák sem vildi áfram í heiminum, til að verða milljón dala ríkur og frægur - eins og Björk varð síðar, og Arnaldur sonur hans enn síðar.
Ekki aðeins Bandaríkjamenn gerðu ráðstafanir
Íslensk yfirvöld (eða ákveðinn flokkur) töldu að 79 á Stöðinni væri einfaldlega of djörf fyrir landsbyggðina. Þau eintök sem sýnd voru utan Reykjavíkur höfðu verið ritskoðuð. Einum þóttu bólferðir Gunnars Eyjólfs og Kristbjargar Kjeld vera hættulegar landbyggðarfólki. Ímyndið ykkur hve hátt hefði verið hlegið ef menn hefðu séð hve líflaust kynlífið var fyrir Sunnan.
Örlög vegna kvikmyndar
Ég hafði samband við góðvini mína hjá CIA og FBI (sem Indriði G. sá í hverju horni á Keflavíkurflugvelli og var oft tíðrætt um er hann var við skál eða þurfti að láta á sér bera á Hressó).
Ég fékk upplýst að Tacy hafi lengst af búið í N-Karólínu og Virginíu, þar sem hann andaðist 2. maí 1984 - aðeins 58 ára að aldri.
Tacy var samkynhneigður (jamm, allt er FBI með nefið í), og hafði hann haldið áfram að starfa a fjölum leikhúsanna. Hann vann/lék um tíma með leikhópi sem var undir stjórn þekktra og hálfþekktra leikara frá New York, m.a. Donald Renshaw, sem lék í einhverjum kvikmyndum áður en hann leikstýrði í London og Þýskalandi. Þessi leikhópur ferðaðist um Virginíu og víðar. Tacy hafði einnig greint frá því árið 1962 í viðtali sínu við Vísi að hann hefði starfað við leikhús í Memphis í Tennessee.
Vonandi hafa endaloks hans sem sjónvarpsmanns, og eins og frumkvöðlum Kanasjónvarpsins á Keflavíkurflugvelli, ekki haft of slæm áhrif á líf hans. Hann andaðist í borginni Alexandríu í Virginíu.
Íslendingar mærðu sjálfa sig meðan að Tacy og Schneph gleymdust
Hvorugum leikaranna af Vellinum var boðið í frumsýningarveislu Saga-film árið 1962. Larry var um það leyti að fara aftur til síns heima og John hafði verið settur í "sóttkví" uppi á velli, þar sem hann vann nokkra mánuði, enn sem þulur á Channel 8, Kanasjónvarpinu.
Við börnin á Reykvískum menningarheimilum, þar sem ekki var alið á sjúklegu Kanahatri og fordómum um börn sem "fæðast dökk með snúinn fót" suður á Velli, horfðu á Roy Rogers, Trigger og týnda kjötfarsið á þeirri stöð, nærri því frá blautu barnsbeini. Afi minn, Vilhelm Kristinsson, sem var Reykvískur heiðurskrati, fékk sér sjónvarp til að horfa á Kanana árið 1963 og ári síðar foreldrar mínir. Á Kanasjónvarpið var mikið horft þangað til mild ásjóna Vilhjálms Þ. Gíslasonar birtist á alíslenskum skjá. Ríkisjónvarpið kom þó aldrei í veg fyrir að amerísk menning flæddi áfram út í Reykvískar stofur á sjónvarpslausum fimmtudögum, og heldur ekki teiknimyndirnar sem sýndar voru alla laugardagsmorgna. Teiknimyndirnar urðu örugglega til þess að maður talar síður enskuna með íslenskum fjárhúsahreim.
Þess ber að lokum að geta, að fyrir utan starf sitt við sjónvarpsstöðina á Keflavíkurflugvelli var John Lacy mikið partýljón og með í country-western hljómsveitinni Eagle Westerners sem tróð upp á Keflavíkurstöðinni.
Þið sjáið gripinn hér fyrir neðan á ljósri treyju, þar sem hann virðist klípa í rassinn á Lovísu Bílddal (síðar Reusch) söngkonu frá Siglufirði, sem andaðist í Orlando í Florida árið 2003 eftir að hafa búið lengst af búið í Illinois (Chicago-svæðinu). Til vinstri við hana sést gríðarlega kanalegur gæi. Það var þó enginn annar en bassaleikarinn Erlingur Jónsson, síðar þekktur sem myndhöggvari. Hann var að Vestan og var faðir Ásgeirs Erlingssonar sem las latínu í MH með ritstjóra Fornleifs. Ásgeir, sem kallaði sig löngum Rossó Greifa, lék einnig listavel á bassa. Þó ekki sveitarokk.
Heimurinn er lítill - og margir verða útundan - en allir skipta þó máli. Einnig útlendingarnir sem Íslendingar fyrirlitu, nema einna síst ef þeir voru Þjóðverjar eða gyðingamorðingjar á flótta, og viðurkennið það nú - Íslendingar eru ekkert betri en aðrar þjóðir. Og þegar vantar einhverja til að hatast út í á Íslandi, t.d. dauða útlenska presta, er hatur lagt á þjóðir við botn Miðjarðarhafs.
Ég er nokkuð viss um að Indriði G. Þorsteinsson, og margir íslenskir karlmenn á hans aldri, hafi séð sjálfa sig í sveitamanninum sem gerðist leigubílstjóri og dó vegna (fjall)konu sem hafði "fallið". Indriði sýndi okkur birtingarmynd fordóma í garð kvenna og útlendinga. Persónulega tel ég að bréf hans til Frank J. Beckers þingmanns í Bandaríkjunum hafi verið hreinn og beinn tvískinnungur.