Þegar ég sá myndina hér að ofan á tímarit.is um daginn, var mér af einhverjum ástæðum hugsað til setu okkar Bjarna F. Einarssonar í Fornleifanefnd um 1996. Þar sat einnig Þór Magnússon Þjóðminjavörður, en fyrir nefndinni sat lögfræðiprófessor, mjög formfastur maður, eins og lögfræðingum ber að vera - fyrir utan að þekkja reglurnar.
Það var Páll Sigurðsson og Páll má ekki vamm sitt vita, og því til jarteina hefur einhver (og líklegast hann sjálfur) skrifað lengsta kafla um nokkurn mann, íslenskan, á Wikipediu.
En, eins og fornleifafæðingum, og ekki síst lögfræðingum sem ekki vita að það er fallið á silfur sem finnst í jörðu, getur lögfræðiprófessorum einnig orðið á í messunni. Eitt sinn, svo vitað sér, henti það Pál Sigurðsson, og skal sagt frá því hér.
Páll Sigurðsson kallaði til fundar í Forleifanefnd þann 22. júlí 1996 með ólöglega stuttum fyrirvara. Ég frétti aðeins af fundinum fyrir tilviljun. Þá voru menn ekki komnir með tölvupóstkerfi og þess háttar. Boðleiðin brást og hún brást hjá Þór Magnússyni. Hann gleymdi að segja mér frá fundi í nefndinni.
Páll Sigurðsson vísaði mér ólöglega af fundi
Við upphaf fundar vísaði Páll mér af fundinum. Ég vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið. En það kom fljótlega í ljós. Páll hafði greinilega ekki haft tíma til að lesa fundargerðina, sem Þór Magnússon hafði tekið saman, þó að síðarnefndi ætti ekkert með að gera það. Ég maldaði í móinn við Pál, en var þá skipað af yfirgefa fundarherbergið og fékk ekki að skýra mál mitt. Allt sem ég reyndi að segja við formanninn við dyr fundaherbergisins, sem einni var aðalkaffistofa safnsins, drukknaði í orðskrúð Páls, sem oft gat verið fjandi kúnstugt og "barokkt", ef hægt er að nota það orð fyrir málnotkun í íslensku máli. Sem dæmi má nefna að Páll svaraði oft mönnum og vísaði í "heiðruð" bréf þeirra.
Það var hins vegar ekki heiðruð meðferð sem ég fékk frá þessum heiðvirða manni, heldur skagfirskur ruddaháttur sem þekktur er frá örófi alda þegar fautar í því héraði hafa brunað yfir lítilmagnana á hrossum sínum.
Páll hafði séð í fundarboði, sem hann hafði ekki haft fyrir því að nærlesa, að mál var á borði nefndarinnar varðandi eitthvað Miðhús. Hann ályktaði að um væri að ræða Miðhús við Egilsstaði, sem nokkur styr stóð út af á þeim tíma, sérstaklega heima hjá Þórarni Eldjárn.
Ég tel víst að hinir nefndarmennirnir hafi verið á sömu skoðun og Páll, því þeir gerðu engar athugasemdir við brottrekstur minn af fundi, og heldur ekki Bjarni Einarsson sem þó vissi betur en þeir sem ekki höfðu lesið fundarboð og málsgögn, enda fyrir löngu búið að ákveða að ég skyldi "tekinn af lífi" varðandi þetta margfræga silfurmál sem einnig tengdist miðhúsum. Glæpur minn var að vera sammála breskum sérfræðingi.
Prófessor Páll Sigurðsson ýtti mér bókstaflega út úr gátt fundarherbergi safnsins, og ég hundskaðist upp á skrifstofu mína í turni Þjóðminjasafnsins. Í góðu stuði skrifaði ég þegar harðort kvörtunarbréf vegna þess að mér var meinað að setja fund í nefnd sem ég var skipaður í. Bréfið sendi ég Menntamálaráðuneytinu og síðar fékk hin heiðvirða Fornleifanefnd einnig bréf dags. 29. júlí 1996.
Hvort það var vegna mjög langra sumarleifa starfsmanna ráðuneytinu, fékk ég ekki svar þaðan fyrr en 9. september (sjá bréfið hér). Það kom frá gamalli skrifstofurottu ráðuneytisins, Árna Gunnarssyni, sem ósjaldan var haukur í horni þegar forsvarsmenn Þjóðminjasafns óku útaf í fjármálum og öðrum málum. Árni Gunnarsson tjáði mér að prófessor Páll myndi svara mér. Takið eftir því að bréf Árna Gunnarssonar er dags. 9. september 1996 - en 9. September 1996 er einnig dagsetning á svari Páls til mín. Boðleiðin á milli Ráðuneytis og prófessors í lögfræði var greinilega hraðvirkari en svarviðleitni við doktorsræfil í fornleifafræði sem vissi, án þess að vera staðkunnugur, að Miðhús er mjög algengt nafn á kotum um land allt.
Eins sjá má tók það málskreytingamanninn Pál Sigurðsson 11 línur að komast að merg málsins og niðurstaðan sem er furðu klaufalega er þessi:
... Sökum ónógrar staðkunnáttu minnar á Austurlandi hef ég þá ekki áttað mig á því að leyfisumsóknin mun ekki hafa beinst að rannsóknum á þeim bæ, sem málaferlin tengjast, heldur öðrum, samnefndum, sem einnig er á Fljótsdalshéraði en í öðru sveitarfélag. Hér er um mistök mín að ræða, sem ég ábyrgist að öllu leyti einn. Á þeim mistökum biðst ég velvirðingar. (Sjá bréfið í heild sinni hér).
Þetta var furðuleg niðurstaða í ljósi þess að Miðhús við Egilsstaði höfðu ekkert verið rædd í nefndinni.
Ég sætti mig vitaskuld aldrei við þessa afsökunarbeiðni. Hvaða erindi hann átti sem formaður í þessa nefnd var alltaf ofar mínu skilningi. Hann er einn af þessum skrýtnu köllum sem stjórnað er af mönnum með nábláar hendur sem trúa því sem eðlilegum hlut að silfur finnist óáfallið í jörðu á Íslandi. Hvar annars staðar en á Íslandi?
Vanþekking Páls prófessors á Miðhúsum var líka merkileg, þegar tillit er tekið til að afi hans, Stefán Vagnsson hagyrðingur, fæddist á einum af mörgum þessara Miðhúsa, en það var á Miðhúsum í Blönduhlíð. Ekki er því hægt að kenna bláum krumlum um fávisku prófessorsins um staðarnöfn landsins. Maður bjóst við meiru, því um skeið var prófessor Páll líka ofarlega í stjórn Ferðafélagsins.
Skömmu síðar þetta sama sumar 1996, óskaði Þór Magnússon ekki starfa minna á Þjóðminjasafni vegna opinberrar gagnrýni minnar á störf hans, til að mynda á óstjórn og framúrkeyrslur á ráðstöfunarfé stofnunarinnar. En fyrir slíkan utanvegaakstur var honum að lokum vikið úr starfi með mikilli skömm eins og frægt er orðið. Sjálfur hafði ég um vorið 1996 ákveðið að flytja úr landi. Kona mín fór fyrst með dóttur okkar nýfædda og ég fór síðar á árinu. Við settum síðan að í besta stað í Kaupmannahöfn í janúar 1997. Þar pakkaði ég skjöl mín varðandi Fornleifanefnd niður í kassa og skoðaði þau ekki að ráði aftur fyrr en hér um daginn. Ég gat ekki setið á mér og varð að deila sögunni af þessari valdbeitingu í dyragátt kaffistofu Þjóðminjasafns 22. júlí 1996. Hún er þó ekkert einsdæmi um dómgreindarleysi manna sem titla sig prófessora í íslenskum lögum.
Málsbætur til handa Páli Sigurðssyni áður en dómur fellur
Einu langar mig við að bæta, háheiðruðum Páli Sigurðssyni til málsbóta, þrátt fyrir svínslega meðferð hans á mér, og það á afmælisdegi mínum mínum. Páll var kominn í mikla ormagryfju þegar hann tók að sér stjórn Fornleifanefndar. Sumir fornleifafræðingar sem sátu í nefndinni notuðu hana óspart í sinn hag. Aðrir notuðu allan sinn tíma til kærumála, enda komið stríð um töglin og hagldirnar í þessum málum á Íslandi. Hér fáið þið eitt sýnishorn: Félag Íslenskra Fornleifafræðinga (FíF) nauðaði á þessum árum mikinn og barmaði sér. Félagsmenn sumir sem gengu í lið við bláu höndina og fengu hana nær upp í afturendann, kvörtuðu þá undan framgangi Bjarna F. Einarssonar í nefndinni. Félagsmenn þar útbjuggu þetta skjal og sendu Þór Magnússyni. Ef menn fletta yfir á bls. 2. sjá þeir afrit til Páls Sigurðssonar af bréfinu með miða Bjarna F. Einarssonar til Páls (þ.e. Bjarna með arabísku augnperlurnar).
Bjarni, vinur minn, sá greinilega ástæðu til að greina Páli frá því að "varamaður minn í nefndinni hefði stutt ályktun FíF".
Ég man að ég hló þegar ég sá þetta, því mér var sannast sagna ekki vel kunnugt um hver var varamaður minn, og enginn samskipti hef ég haft við hann (hana?) um athæfi Bjarna sem sjálfskipaðan fornleifalögreglumann. Mest hló ég þó í einhvers konar angist, því mér varð ljóst að maður sem ég taldi til vina minn, var greinilega svona falskur.
Bjarni óð einnig í villu eins og oft áður og síðar. Varamaður minn í Fornleifanefnd var Margrét Hallgrímsdóttir sem ég hafði engin tengsl við, hvorki persónuleg né fagleg. En núverandi þjóðminjavörður hafði vitaskuld mörg horn í síðu Bjarna F. Einarssonar á óvenjulegri leið hennar í þær stjórnunarstöður sem hún sótti í. Það var ekkert leyndarmál. Horn hans stóðu einnig í síðu hennar. Það var þó ekkert sem ég lét mig varða, og kom ekkert starfi í Fornleifanefnd við - að því er ég held. En í klíkuveldinu Íslandi veit maður aldrei.
Líklegt tel ég að Bjarni Einarsson, með miður hreina samvisku sína í "Miðhúsaupphlaupinu" þ. 22. júlí 1996, hafi verið að reyna að koma því inn hjá lögfræðiprófessornum, að ég stæði á bak við gagnrýnina á sig meðal félagsmanna í FÍF. Ég hafði ekkert samband við það fólk.
Já, þannig eyddu menn tíma sínum og skattpeningum landsmanna árið 1996. Fróðleiksfúsir menn gætu vissulega spurt: Hefur nokkuð breyst síðan að ég sat rúmt ár í þessari nefnd? Svari þeir sem svara vilja.