Glöggir lesendur Fornleifs, (sem þeir eru vitaskuld allir), muna kannski eftir grein um met frá fornrústinni Bólstað í Álftafirði og hliðstæðu þess, nokkuð minni, sem fundist hefur í grafreit norrænna manna í Wales.
Í gær frétti ég af meti (sjá mynd efst, sem tekin er af Tor-Erik Krokmyrdal) sem fundist hefur á Hálogalandi í Norður-Noregi, og sem er af sömu gerð - og mjög líkt metunum frá Bólstað og Llanbedrgoch á Angelsey í Wales sem ég greindi frá árið 2013.
Met frá Anglesey í Wales
Metið frá Bólstað í Álftafirði vestri.
Norska metið fann fornleifafræðingurinn Tor-Erik Krokmyrdal sem nýlega lauk mastersnámi í fornleifafræði við háskólann í Tromsö. Hann fór um miðjan aldur í nám í fornleifafræði vegna brennandi áhuga síns á málmleitartækjum.
Efniviður ritgerðar hans voru merkir fundir sem hann hafði fundið með tækjum sínum í Sandtorgum (Norska Sandtorg, upphaflega ef til vill Sandhörgi) i Tjeldsund, sem er í bæjarfélaginu Harstad í Þrumu (Troms og Finnmark fylke) - þaðan sem margir landnámsmanna á Íslandi voru ættaðir. Hér á vefsíðu Háskólans í Tromsö má lesa um árangur mjög merkilegra rannsókna Tor-Eriks Krokmyrdals.
T-Erik telur Sandtorg geta hafa verið mikilvægan verslunarstað og byggir það m.a. á rökum örnefnafræðingsins og fornfræðingnum Oluf Rygh sem uppi var á 19. öld. Mín þekking á þeim meistara er sú að það verður að taka hann með fyrirvara þegar kemur að örnefnarannsóknum hans, sem oft voru tómar staðhæfingar. Sandtorg þarf ekki að hafa rótina torg líkt og sumir telja, heldur getur rótin vel verið hörg, og var því nafni ef til vill upphaflega Sandhörg. Hörg (eða hörgur) voru heiðnir blótstaðir kallaðir og orðið þekkist í ýmsum örnefnum á Íslandi (t.d. Hörgárdalur, Hörgsholt og Hörgshlíð svo eitthvað sé nefnt). Nafnið getur því hæglega þýtt blótstaður á Sandi. En við blótstaði og hof var oft blómleg verslun eins og síðar við útvalda kirkjustaði, eða þar sem fólk hittist oft þegar menn fóru í stað. Á Sandtorgi gæti því vel hafa verið blómleg verslun.
Ég hef gert Krokmyrdal viðvart um metin á Íslandi og í Wales, sem eru hliðstæður metsins frá Sandtorgi, en hann þekkti þau ekki og þau eru ekki nefnd í lokaritgerð hans sem má lesa i heild sinni hér. Metin sem Krokmyrdal fann eru nefnd á blaðsíðu 38.
Ég er nú alls ekki alveg sammála ályktun Krokmmyrdals um aldur metsins. Í kumlateignum í Llanbegdrgoch (mynd hér fyrir ofan), þar sem sams konar met hefur fundist, fannst mynt sem er frá 10. öld. Mannabein úr kumlateignum hafa einnig verið aldursgreind til 10. aldar og hér fyrir neðan get menn skemmt sér við að skoða túlkun á því hvernig fólkið sem þar var heygt, leit út. Það var allt innbyrðis skylt að sögn mannfræðinganna. Mér sýnist næsta víst að þetta hafi verið Íslendingar, ja ef vera skyldi "Hálygingar" eða Hálogaverjar eins og þeir eru kallaðir einhvers staðar í fornum ritum. En mig grunar einnig að mannfræðingarnir/listammennirnir sem unnu þessar styttur í Manchester hafi starfað fyrir kvikmyndirnar Apaplánetuna. Höfukúpurnar og önnur bein í Llanbegdrgoch eru af fínlega byggðu fólk, en ég þykist sjá samísk einkenni - og er vitaskuld meðvitaður um að engum hafi dottið það í hug í Wales, en maður verður að koma sínum metum við, eins og sagt var til forna.
Nú eru met af þessari gerð þessi talin hafa verið framleidd á Bretlandseyjum eða á Írlandi, og það þykir mér líklegt. Hins vegar er mjög athyglisvert að sjá víðáttumikla dreifingu þessarar gerðar af metum nú. Líklega breytist myndin síðar, þegar fleiri met finnast.
Þyngdin er mismunandi. Metið frá Bólstað er 86,5 gr. en Llanbedrgoch er léttara eða 57,2 gr. Gaman væri að fá þyngd metsins frá Sandtorg.
Til gamans skal hér látinn fylgja elsti ritaði texti þar sem nefnt er staðarnafnið Sandtorg í Þrumu, en hann er frá 1321 og varðar að sjálfsögðu kaup, og lesið nú það sem Nútímanorðmenn skilja ekki bofs í. Ég hef lent á tali við fræðimenn í Noregi, sem ekki trúa því að ég og aðrir Nútímaíslendingar geti lesið texta sem þennan:
Ollum monnum þeim sem þetta bref sea eða heyra, senda
Ogmundr prestr a Þrondarnese ok Jwar loghmaðr a Haloghalande, Q.G. ok sina, yðr se kunnikt. at vit varom þar hia i Oddzhusum i Vaghom a friadaghen nesta eptir kross messo vm varet anno domini millesimo, trescentesimo, vicesimo primo. er Helgi huasse lauk herra Ellingi Viðkunnar syni með handa teke spannzleighu iarðar i Sandtorghe j sakareyri þan sem Helgi var honom skylldugr, frialsa ok veðeslausa firir huerium manne. Ok til sanz vitnisburðar settom vit okor insigli her firir.
Í Sandtorgum