Danir líta á þennan kvikmyndabút, sem lýsir flugvélakosti Íslendinga árið 1958, sem danskan menningararf. Kannski hefur skrásetjari ekki frétt af sambands- slitum ríkjanna og stofnun lýðveldis á Íslandi árið 1944.
Myndbúturinn, sem hægt er að sjá hér, var tekinn af Frank Poulsen og er úr safni DR (Danmarks Radio). Hugsanlega hefur þessi mynd verið sýnd í danska sjónvarpinu.
Frábært er að sjá lendingu Catalinu flugbátsins TF-Skýfaxa á Skutulsfirði og farþega að fara um borð á Gunnfaxa TF-ISB, DC-3 flugvél FÍ á Egilsstöðum. Það er ekki langt síðan þetta var, en samt virkar þetta eins og svipmynd aftan úr fornöld.
Stoltur faðir gengur um borð á Reykjavíkurflugvelli, og efst má sjá farþegum hjálpað í bát sem sigldi með þá í land á Ísafirði.
Takið eftir að blessaður Mogginn var helsta róandi meðalið um borð líkt og í dag. En hvað var fólk að lesa? Greinilegt er að þetta var í miðju þorskastríðinu árið 1958. Þegar Íslendingar hótuðu t.d. að fara úr NATO og fengu styrki frá Moskvu. Ugglaust hafa blaðamenn frá Danmarks Radio verið sendir til að fylgjast með málinu.
Maðurinn hér á myndinni til hægri er að lesa Morgunblaðið þann 26. nóvember 1958, þegar landhelgismálið var í algleymingi. Bretar voru auðvitað ósvífnir og ruddalegir að vanda.
Fyrirsögnin var svo eftir því í Mogganum: "Afsýra verður voðanum að ofbeldi Breta".
Misfínir karlar fljúga frá Egilsstöðum.