Fyrir réttu ári síðan heimsótti ég Holland í rúma tvo daga, m.a. til að skoða sýningu á Gemeendtemuseum í den Haag sem ég hafði lagt til upplýsingar og skrifað örlítið í risavaxna og glæsilega sýningarskrá fyrir sérsýningu. Ég heimsótti daginn áður Amsterdam til að ganga á fund prófessors Joost Schokkenbroeks sem m.a. er forstöðumaður rannsóknardeildar Siglingasögusafns Hollands, en einnig til að hitta Ninu Jaspers fornleifafræðing og sérfræðing í keramík sem ég skrifaði nokkrar línur með í sýningarskrána, sem hún var ein af aðalhöfundunum að. Ninu og prófessor Schokkenbroek hef ég fengið til að vera með í stóru verkefni sem nú er reynt að koma á laggirnar undir yfirstjórn dr. Ragnars Edvardssonar. Meira um það síðar, ef úr verður.
Meðan ég beið eftir því að hitta Ninu og samstarfsmann hennar Sebaastian Ostkamp í litlu sérfræðifyrirtæki sem þau reka í miðborg Amsterdam, fór ég á elsta kínverska veitingastaðinn í Amsterdam, sem ég hef fyrir sið að fara á í hvert skipti sem ég er staddur í borginni. Hann er í dag kallaður Oriental City (sjá mynd hér til hægri). Mér var vísað til borðs við glugga á 2. hæð, þar sem ég hafði aldrei setið áður. Meðan að ég er að bíða eftir matnum, er mér litið yfir síkið (díkið/dijk) og sé léttklædda konu í glugga í húsi á hinum bakkanum. Þótt þessi kínverski staður sé ekki alllangt frá helstu rauðljósgötum Amsterdam, þá var konan í glugganum alveg örugglega ekki ein af þessum léttklæddu portkonum eða dækjum sem baða sig rauðu ljósi til að auglýsa kjöt sitt við díkin (síkin). Hún bjó nefnilega á þriðju hæð. Konan sem ég sá í glugganum var greininga heiðvirð, ung kona sem var nýkomin úr baði.
Ég leit því blygðunarlega undan ofan í matinn sem kominn var á borðið. Hann bragðaðist vel að vanda. En vitaskuld leit maður aftur yfir síkið til að gæta að því, hvort konan væri nokkuð í hættu. Ástríðglæpur, Rear window ... þið vitið hvað ég er að fara. Þannig var því sem betur fer ekki háttað. Engar blóðslettur voru sjáanlegur.
En þá tók ég eftir öðru efst á gafli hússins sem unga, léttklædda konan bjó í. Þar er mikið skjaldamerki, sem mér þótti áhugavert. Þar sem unga, allsbera konan var löngu farin úr glugganum, tók ég upp myndavél mína, Pentax Optio E80 vasamyndavél, og með aðdrætti ríkulegum sá ég betur þetta einstaka skjaldamerki. Á því sjást þrír mjög stórnefjaðir menn og stytta, brjóstmynd af stórnef einum, er efst á mæninum.
Um daginn var ég að skoða myndir ársins 2014 og staldraði aðeins við skjöldinn á húsi nöktu konunnar sem stendur á Oudezijds Voorburgwal númer 232. Eftir örlitla leit á vefnum fann ég skýringuna þessu skjaldamerki. Árið 1625 byggði Pieter nokkur Parys þetta hús, en í byrjun 18. aldar bjó kaupmaðurinn Jan-Frederik Mamouchette (Mamouchet) og spúsa hans Catherina van Heusden í húsinu og settu á það nýjan gafl. Þessi skjöldur á að tákna tengsl ætta þeirra hjónanna.
Margar kenningar hafa verið settar fram um "Húsið með stóru nefin" eins og húsið er kallað í daglegu tali. Sumir segja stórnefirnir séu vísun í eftirnafnið Mamouchette, það er "ma mouchette" - stóra trýnið mitt. Það þykir mér sjálfum ólíkleg skýring. Aðrir benda á að myndin sýni múslíma eða Saracena, en Mamouchette verslaði einmitt fyrir botni Miðjarðarhafs. Mouchette getur einnig þýtt neftóbaksdós eða sá sem tekur í nefið en sá siður ruddi sér til rúms í byrjun 17. aldar (Sjá hér). Þá eru þetta kannski bara neftóbakskarlar. Hver veit? Líka má ímynda sér að þetta séu gyðingar, en stór nef hafa löngum loðað við þá, segja fróðir menn.
Kannski veit nakta konan í húsinu eitthvað meira. Hér kemur svo myndin af henni. ........
........
Æi nú, hún reyndist ekki alveg í fókus. Ég spyr hana um sögu hússins þegar ég er næst í Amsturdammi. Vona ég að hún stökkvi ekki upp á ættarnefið, en sannast sagna tók ég ekkert eftir nefinu á henni. Svona í bakspeglinum minnir mig að hún hafi verið snoppufríð stúlkan sú. En þegar maður er bara með Pentax Optio E80 í vasanum, er ekki hægt að búast við góðu minni og smáatriðum.