Hér kemur loks grein fyrir ykkur sem hafið gaman af bílaleik.
Bílafornleifafræði er samt ekki mín sérgrein. Ég veit sannast sagna mjög lítið um drossíur. Það er þó ekki svo að skilja að ég hafi ekki áhuga á fögrum bílum. Til dæmis keypti ég hér um árið einstakan bækling (haandbog) frá 1922 sem fylgdi Ford bílum í Danmörku og eru menn sífellt að suða í mér um að selja sér hann. Ég er bara einn af þessum körlum sem á bíl til að þurfa ekki að keyra með strætó og sem veit að kaggi eykur ekki kvenhyllina og tryllitæki lokka aðeins að léttkeyptar konur og vafasama drengi. Ást Íslendinga á bílum er óhemjuleg svo ég segi ekki of mikið.
Nú er ég líka í vanda staddur og þarf á hjálp að halda hvað varða braggabifreiðina til hægri á myndinni hér að ofan. Myndin var tekin sumarið 1934. Mér sýnist að bíllinn, sem bar skráningarnúmerið RE543, hafi verið lagt við veginn, sem huganlega er Kleppsvegur, og að þetta sé yfirbyggður Ford T. Þessi alíslenska hönnun hefur nú vart verið gjaldgeng á rúntinum, en hún var langt á undan sínum tíma.
En hvaða furðubíll var þetta á leið austur (eða jafnvel með vélarbilun þar sem enginn bílstjóri er í bílnum), og veit einhver hver smíðaði yfirbygginguna á bílinn?
Opelinn, sem mér sýnist að aki vestur Kleppsveg, var hins vegar eðalkaggi sem fluttur var sérstaklega til Íslands af nasistanum Paul Burkert, svo hann gæti ferðast um landið með stíl. Burkert sem leit út eins og nefbrotinn SS-maður, ferðaðist jafnan í síðum, svörtum leðurfrakka og naut greinilega ákveðinnar kvenhylli á Íslandi eins og um hefur verið rætt hér og hér. En kannski var það kerran hans sem gerði útslagið. Hvernig leit bílstjórinn á Opelnum út, þá er hann átti (giftur maðurinn) í ástarsambani við rauðhærða ungpíu frá Íslandi sem húkkaði helst karla sem heilsuðu um hæl. Eins og þið lesendur mínir getir séð var hann ekki beint glæsilegur og hefur einhver kommúnisti líklega nefbrotið hann. Blæjubíllinn hefur því vafalaust verið honum ágæt framlenging.
Ökumaður bifreiðarinn RE543 átti sýnilega ekki hinn minnsta sjens í Njósna Paul. Íslenskir lúðar í heimameikuðum braggabíl dóu líklega endanlega út eftir stríð og þá var Nasistaópelinn líka á lágu gengi meðal vergjarnra, íslenskra kvenna. Þá komu einu gjaldgengu kaggarnir frá Vesturheimi.
Fornleifur veit þegar heilmikið um Hr. Flick á ferðalagi hans á Íslandi; Til að mynda að Opel Aktiengesellschaft i Rüsselsheim lánaði þýska njósnaranum bifreiðina.
En mikið væri Leifur forni nú glaður, ef einhver gæti frætt hann aðeins betur um braggabílinn RE543. Ekki væri dónalegt að fá að vita í leiðinni hve mikillar kvenhylli eigandinn naut. Kannski lá hann á keleríi á þægilegu aftursætinu, og ekki er ólíklegt að Hr. Flick (Burkert) hafi gefið honum far í bæinn.