Áhöfn Fornleifs eins og hún leggur sig, bæði mús og menn, mætti í gær á ráðstefnu um íslenska Fullveldið, sem haldin var á nýbyggingu lagadeildar Hafnarháskóla á eyjunni Amákri.
Veðrið var eins og það er alltaf í Danmörku, 20 stiga hiti og sólskin, og sáu íslenskir gestir á ráðstefnu þessari, hvers þeir fóru á mis við með því að kveðja kóng sinn að mestu árið 1918.
Fyrirlestrarnir voru misjafnir og ýmislegt meira hefði mátt segja. En þegar menn hafa ekki nema 20 mínútur hver, er erfitt að segja allt sem manni langar og öllum líkar. Þeir sem ekki eru sérfræðingar, fengu hins vegar góða innsýn í aðdraganda sambandsslitanna árið 1918.
Líkt og ég greindi frá á þessu bloggi mínu í fyrradag fannst mér vanta danska hlið málsins sagnfræðilega séð, en þeir tveir dönsku sagnfræðingar sem töluðu og einn þeirra af hálfgerðum vanefnum, snertu ekki á því. Fyrirlestur sagnfræðilektors frá Hafnarháskóla sem ég nefndi hér um daginn var þó með ágætum.
Lagalegu hliðunum (þær eru alltaf margar) voru hins vegar gerð góð skil af afar nákvæmum, samviskusömum og einstaklega hæfum konum frá tveimur háskólum á Íslandi og þeirri þriðju frá Hafnarháskóla sem var hreint út sagt séní í ensku. Rektor Kaupmannahafnarháskóla sem var karlpungur á mínum aldri talaði um Surtsey, Heimaey og Eyjafjallajökul með sínu nefi, en virtist mest hrifinn af Íslenskri Erfðagreiningu, sem lá ef til vill næst hans þekkingu, sem er matvælaöryggi.
Kaffihlé og snittur
Guðni forseti heilsaði á mig í kaffihléi. Framsaga hans var því til sóma, persónuleg og fyndin að auki. Eins ræddi ég við Gunnar Þór Bjarnason sagnfræðing, þegar komið var að snitteríinu og Rínarvínum í boði Íslenska lýðveldisins eftir ráðstefnuna. Gunnar Þór sagði mér og öðrum frá bók um sambandsslitin sem brátt kemur út eftir hann. Í henni mun hann kannski fyrstur sagnfræðinga framreiða eitthvað um danska þáttinn í ferlinu fyrir sambandsslitin, sem ég hef líka skoðað lítillega og undrast mjög að engin hafði birt eitthvað úr þeim skjölum sem ég hef lesið. Nú ræður Gunnar Þór bót á því með jólabókinni í ár, hann hefur farði í Ríkisskjalasafnið í Kaupmannahöfn. Danir undirbjuggu ýmislegt árið 1918, enda voru þeir hluti af þessu máli.
Í Köben í gær var líka mætt frú Vigdís fyrrv. forseti, Steingrímur forseti Alþingis (og enginn gekk á dyr þótt hann sæist á svæðinu). Utanríkisráðherrann okkar var þarna líka, enn og aftur í of þröngum jakkafötum (það verður einhver að fara að segja honum að þau passi honum ekki lengur). Honum hefur greinilega ekki tekist að ná af sér bumbunni sem hann reyndi að slétta þegar ég og hann hömuðumst á gólfinu hjá Hrafni og Ágústu í gamla daga. Þarna var meira að segja ræðismaður Íslands í Færeyjum, Pétur jr. Thorsteinsson, en samkoma þessi verður að hluta til endurtekin í Þórshöfn á dag.
Það var einstaklega vel að þessu staðið. Þingið var íslenska sendiráðinu og Hafnarháskóla til mikils sóma.
Fullvalda Fornleifi ekki boðið
Ritstjóra Fornleifs var hins vegar ekki boðið á gala-viðburðinn í dönsku drottningalegu Óperunni í gærkvöld, þó ég hafi búið undir oki dönsku krúnunnar lengur en flestir Íslendinga - og þykir boðleysan furða þar sem ég er eini maðurinn í þessu landi, og þó lengi væri leitað, sem hefur tekist að ná út úr danskri ríkisstjórn afsökunarbeiðni fyrir löngu liðna atburði, þó það hafi aldrei nokkurn tíma verið ætlun mín. Það mál varðaði ekki Ísland og venjulega gefa Danir engar afsakanir fyrir mistök sín. Og þessi var sínu áhugaverðari, þar sem ég hafði ekkert farið fram á slíkt. Ég hjólaði bara með eintak bók eftir mig í danska forsætisráðuneytið því þáverandi ráðherra, Anders Fogh Rasmussen, hafði heyrt af henni og látið ráðgjafa sína segja sér að Símon Wiesenthal stofnunin væri farin að láta illa út af niðurstöðum í henni. Núverandi forsætisráðherra hefur hins vegar greinilega aldrei lesið bók mína, og er hún því komin í röð flestra bóka sem hann hefur átt við. Nýlega er hann minntist björgunar fólks undan nasistum og elskulegri samvinnu Dana við setuliðið þýska, nefndi hann ekki aukatekið orð um að danskir stjórnmála- og embættismenn á 5. áratug 20. aldar vísuðu flóttafólki úr landi og oftast beint í dauðann - sem forveri hans í starfi hafði beðist afsökunar á árið 2005.
Forsætisráðuneytið danska og þingið bauð 900 gestum á þessa skemmtum og íslenska sendiráðið fékk að afhenda lista yfir 500 íslendingum eða fólki i dansk-íslensku samstarfi, og þar að auki 80 sérvöldum ásamt maka.
Ég kemst líklegast aldrei á svo fína samkomu og það gerir svo sem ekkert til því jakkafötin mín standa mér meira á beini en James Bond dress Gunnlaugs Þórs Þórðarsonar.
Forsætisráðherrann danski kom ekki á ráðstefnuna á Hafnarháskóla í gær. Hann valdi að fara á tækniháskólann, þar sem kona mín vinnur, og þar sem miklu þjóðhagslegri atriði en löngu liðin sambandsslit við vitaómögulega þjóð voru díluð.
En hann var þó gestgjafi í óperunni í gærkvöld. Þar var líka mætt Pia Kjærsgaard sem fékk að heyra það á Íslandi í sumar vegna þess að hún vill losna við flóttamenn í dag. Margrét drottning og sonur hennar og tengdadóttir létu sig heldur ekki vanta. Svo flóttamönnum sé enn einu sinni blandaði í málið líkt og gerðist í sumar á Íslandi, þá hjálpaði afi Margrétar drottningar aldrei flóttamönnum, því embættismenn hans komu í veg fyrir slíkt og týndu viljandi bréfum frá fólki í vanda til hans. Frá því er m.a. greint með nokkrum dæmum í bók minni Medaljens Bagside (2005). Öll fögnuðu þau í gær að losna friðsamlega við Íslendinga fyrir 100 árum síðan, jafnvel þó þeir væru ekki helvítis flóttamenn.
Mig grunar eftir þennan fræðandi gærdag, að Danir hafi fyrst og fremst reiknað út, hvort það væri hagkvæmt fyrir Danmörku að veita sambandsslitin. Danir gera, eins og kunnugt er ekkert nema að þeir græði á því eða að dæmið fari að minnsta kosti ekki í mínus. Danir viðurkenna þetta sjálfir. Ég held að menn hafi reiknað það út árið 1918, að Ísland yrði Danaveldi aðeins til vansa og endalaus dragbítur á alla þróun. Kannski var það þess vegna að menn voru svo glaðir að losna við Ísland að mestu leyti árið 1918. Það var það sem menn kalla win-win situation í bönkunum í dag, áður en allt fer á hausinn.