Quantcast
Channel: Fornleifur
Viewing all articles
Browse latest Browse all 396

Saga af sverði - Hrafnkelsdalssverðið

$
0
0

untitled-duplicated-02_1266273.jpg

Árið 1897 fann ungur maður fornt sverð í Hrafnkelsdal. Löngu síðar leiddi dr. Jón Hnefill Aðalseinsson mjög góðar líkur að því hver finnandinn hefði verið. Hann hét Benedikt Ísaksson og var vinnumaður hjá Elíasi Jónssyni bónda á Vaðbrekku og síðar í Aðalbóli. Af frásögnum eldri manna sem þekkt höfðu Benedikt, og sem Jón Hnefill hafði tímanlega tal af, er hægt að álykta að sverðið hafi fundist í Skænudal sem er lítill dalur sem gengur vestur og suðvestur inn á múlann sem er á milli Hrafnkelsdals og Jökuldals. 

Þótt Jóni Hnefli hafi þótt mikilvægt og áhugavert að velta fyrir sér hver finnandi sverðsins var og hvar það fannst, þá er eigendasaga þess engu síður áhugaverð, sem og gerð sverðsins. Það tvennt mun aðallega verða rætt hér, því sú saga hefur enn ekki verið sögð að fullu, þótt oft hafi verið skrifað um sverðið og það án vitundar um allar heimildir sem því tengjast.

Nýjar heimildir um um sverðið frá aldamótaárinu 1900 verða hér settar fram í fyrsta sinn. Þær hafa varðveist á því sem forðum var kallað 2. deild Þjóðminjasafns Dana (Nationalmuseets 2. Afdeling) í Kaupmannahöfn.

Ef rétt er að Benedikt Ísaksson hafi fundið sverðið, þá hefur hann eða bóndinn sem hann vann fyrir selt H.I. Ernst apótekara á Seyðisfirði sverðið fyrir 12 krónur. Sverðið endaði síðan á Statens Historiska Museum í Stokkhólmi. Lýsir Kristján Eldjárn því í doktorsritgerð sinni í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands, Kumli og Haugfé (1956). Því miður hafði Eldjárn ekki aðgang að öllum skjölum og yfirsást gögn sem ég fann löngu síðar í Kaupmannahöfn á 9. tug síðustu aldar. Hér skal bætt inn í eyðurnar og nýjar heimildar taldar til.

Kaup og sölur

Eigandasöguna gætum við byrjað með skrifum Þorsteins Erlingssonar skálds í blaðinu Bjarka árið 1900. Þorsteinn fór fremur háðskum orðum um að H.I. Ernst hefði haft sverðið af finnandanum án þess að finnandinn fengi nóg fyrir snúð sinn:

Maður fann hjer gull- og silfurbúið sverð, uppi í Hrafnkelsdal nú nýlega og er sagt að hann hafi verið svo sorglega fávís að selja Ernst apótekara það fyrir 12 kr. Eftir því sem af sverðinu er sagt hefði forngripasafnið íslenska gefið manninum að minsta kosti 100 kr. fyrir það og ný er auk þess líklega loku skotið fyrir að það komist þangað og er það illa. (Þorsteinn Erlingsson í Bjarka 5. árg. 1900. 25. tbl. 25.06.1909).

Þessi skoðun Þorsteins fór fyrir brjóstið á apótekaranum sem svaraði nokkrum dögum síðar í öðru blaði, Austra:

Bjarki og hið forna sverð

Í tilefni af því, að föðurlandsvininn, ritstjóra Bjarka tekur það svo ákaflega sárt að vita til þess að forngripasafnið í Reykjavík skuli missa af sverði því er fannst um vorið 1897 í Hrafnkelsdal, - er mér sönn ánægja að því, að hugga ritstjórann með eptirfarandi tilboði: Í 24 klukkustundir frá birtingu þessa tilboðs míns í Austra stendur herra Þorsteini Erlingssyni þetta forna sverð til boða fyrir 112 krónur, hvar af 100 kr. skulu skiptast milli þess sem seldi mér sverðið, og stofnana til almennings heilla hér í kaupstaðnum, eptir opinberlega auglýstri skýrslu. Að sjálfsögðu verður herra Þorsteinn Erlingsson skriflega að ábyrgjast mér, að forngripasafnið í Reykjavík verði njóti sverðsins, þó það kynnu að verða mjög deildar meining milli safnsins og herra Þorsteins Erlingssonar um verðmæti sverðsins. ....

Seyðisfirði, þann 29. júní 1900. H. I. Ernst lyfsali , p.t. eigandi hins forna sverðs. (H.I.Ernst í Austra, 22. tbl. 29.06.1900).

Síðar sama ár skrifaði Ernst apótekari Þjóðminjasafni Dana. Það bréf fann ég í einni af mörgum heimsóknum mínum á Þjóðminjasafnið í Kaupmannahöfn á árunum 1981 til 1986. Líklegast árið 1981. Bréfin sýna, að Ernst hafði ekki aðeins áhuga á að koma sverðinu í verð. Hann leitaði upplýsinga um gerð sverðsins og aldur þess.

1. Nóvember 1900 skrifar Ernst til Arthurs Williams Mollerup sem var yfirmaður 2. deildar Þjóðminjasafns Dana.

H.I. Ernst                                      Seydisfjord, den 1ste Novbr. 1900.

Privilg. Apotheker

Generalagentur for Livsforskikringsselskabet SKANDIA STOCKHOLM

Til Direktören for Nationalmuseets 2d Afdeling, Höjvelbaarne Hr Dr. phil. Mollerup R. af Dbrg. Kjöbenhavn.

Efter Anmodning fra Justitsraad Hansen i Hobro tillader jeg mig herved at fremsende et Fotografi af det i Hrafnkelsdal her paa Island fundne Sværd. Som det vil sees af Fotografiet er Sværdet, der maaler 35 ½ Tommer, en nöjagtig Copi af det i Fabricius Danmarkshistorie Side 38 afbildede Sværd fra Jærnalderen. Tillige findes Sölv og Guld indlagt paa Sværdknappen (synligt på Billedet) og nede ved Haandgrebet. Jeg skal tillige oplyse om, at Rektoren ved Reykjavik Latinskole Dr. phil. Björn Olsen, der har set Sværdet hos mig, formener, at der under Haandgrebet findes Runer, der imidlertid for mit Øje synes at være utydeligere. Som ovenform bemærket, er Sværdet fundet i Hrafnkelsdal, hvor Hrafnkel Freysgode ligger begravet; men yderligere undersøgelser af Stedet gav intet foröget Resultat. - Saafremt Museet paa Basis af de modtagne Oplysninger kan bestemme Sværdets Alder vilde jeg være særdeles taknemmelig for en Meddelelse herom.

Med særdeles Höjagtelse

Ærbödigst

H.I.Ernst

Apotheker og Vicekonsul.

Upplýsingar í þessu bréfi Ernsts apótekara veita okkur vitneskju um að fundarstaður sverðsins var rannsakaður eitthvað frekar eftir fund þess.

bref_fra_ernst.jpg

Annar maður, Frederik Opffer að nafni, sem var blaðamaður í Køge, á Kjøge Avis, skrifaði sömuleiðis eins konar rógsbréf til Þjóðminjasafns Dana. Hvar hann hefur snapað upp fréttir af kaupum Ernst apótekara á íslensku sverði, er ekki gott að segja.

Kjøge, d. 24. September 1900

Hr. Museumsinspektør Mollerup!

Apotheker H. J. Ernst på Seydisfjord har for nogen Tiden siden af en islandsk bonde kjøbt et ældgammelt Høvdingesværd for 12 kroner. Efter Beskrivelsen skulle det være meget smukt og interessant . Det forlyder, at det er indlagt og bærer Navnetræk, således at man ved, fra hvem ddet stammer. Efter hvad jeg fra sikker Kilde har bragt i Erfaring, agter Apotheker Ernst at sælge Sværdet til en engelsk Samling. Da dette formentlig strider imod Bestemmelserne angående Danefæ, og da det jo var kjedeligt, hvis en antikvarisk Sjældenhed skulde gå ud af Landet for personlig Vindings Skyld, tillader jeg mig at henlede Deres ærede Opmærksomhed på Sagen. Apotheker Ernst´s Fader, fungerende Toldkontrøller Ernst, Vesterbrogade 115(?) vil sikkert kunne give goder Oplysninger derom.

Med særdeles Agtelse                                                                                                                    Frederik Opffer

I uppkasti af bréfi sem Arthur William Mollerup hefur ritað Ernst apótekara þann 12.desember 1900 skrifar hann meðal annars:

... Gennem Justitsraad Jensen har jeg erfaret, at De foreløbigt ikke agter at afstaa sværdet. Paa Grund af den antikvariske Værdi vil jeg dog være Dem forbudnen for en Meddelelse naar De eventuelt skulde faa i Sinde at skille Dem ved det.

Ernst upplýsti greinilega, að hann væri ekki á þeim buxunum að selja sverðið.

Ekkert af þessum síðastnefndu upplýsingum úr Þjóðminjasafni Dana, koma fram í Kumli og Haugfé Kristjáns Eldjárns og þaðan að síður í endurútgáfu á ritgerðinni frá 2000, enda fann ég fyrstur manna þessi bréf og greini fyrstur frá þeim nú. Ég sé nú, þegar ég tek þau fram eftir að þau höfðu safnað hjá mér ryki í möppum, að enginn hefur nýtt sér þau þegar um sverðið í Hrafnkelsdal hefur verið ritað á síðari árum. Aðstandendur endurútgáfu ritgerðar Eldjárns gerðu sér ekki í þessu efni frekar en í öðrum mjög mikið far um að bæta við upplýsingum.

Ernst apótekari lét síðan sverðið. Hvort hann seldi eða gaf það vitum við ekki í dag. En það endaði í Svíþjóð, en Ernst var umboðsmaður SKANDIA líftryggingafélagsins, sem gæti skýrt ferð sverðsins til Svíðjóðar. Samkvæmt sænskum heimildum gaf N. Petersen jústítsráð í Kaupmannahöfn formlega sverðið Óskari 2. Svíakonungi, sem lét það síðan árið 1903 á Statens Historiska Museum i Stokkhólmi. Fékk sverðið safnnúmerið SHM-11537.

Sverðið afhentu Svíar svo Íslendingum árið 1971 eins og t.d. má lesa um hér á forsíðu Þjóðviljans hinn 15. september 1971, ellegar í grein Þórs Magnússonar í Árbók Fornleifafélagsins 1971. Ekki gat það talist til gjafar sænskum lögum samkvæmt, en það er nú á Íslandi til ævarandi varðveislu (ständig deposition). Þann 14. september 1971 fékk Þór Magnússon sverðið í hendur, og hefur það síðan verið varðveitt á Þjóðminjasafni Íslands og er enn skráð með sænsku safnnúmeri með öðrum upplýsingum Sarpi) sem er hins vegar mjög ábótavant.

1920px-ufberht_gerade.jpg

Dæmigerð VLFBERHT áritun,er þó ekki á íslensku sverði.

+VLFBERHT+ sverð

Sverðið sem kennt er við Hrafnkelsdal, þótt það hafi fremur fundist í Skænudal, er með svo kallaðan VLFBERHT brand - að því er talið er. Það telur dr. Kristín Sigurðardóttir forvörður, núverandi forstjóri Minjastofnunar Íslands. Kristín telur sig einnig hafa fundið VLFBERHT-áletrun á hinu fagra sverði (Þjms. 557) sem fannst árið 1868 í kumli að Hafurbjarnarstöðum, sem er nærri Sandgerði. Sömuleiðis telur Kristín sig hafa fundið VLFBERHT-áletrun á brandi sverðs sem fannst í Baldursheimi í Mývatnssveit (Þjms. 2), en mér vitandi hefur Kristín ekki birt neitt því til stuðnings.

_rkynju_vlfbehrta.jpg

Kristín Sigurðardóttir forvörður hefur birt þessa meintu VLFBERHT áletrun á sverðinu frá Hafurbjarnarstöðum, eða réttara sagt leifar hennar, því greinilega er ekki mikið eftir af henni. Líkast til er þetta áletrun á lélegri eftirgerð af VLFBERHT brandi.

hafurbjarnarsta_ir.jpg

Sverðið frá Hafurbjarnarstöðum. Ljósm. Þjóðminjasafn Íslands.

baldursheimur.jpgSverðið frá Baldursheimi er mjög illa farið og með ólíkindum að inngreipt VLFEBRHT-"tauschering" á yfirborði brandsins hafi varðveist. Sönnun fyrir því væri vel þegin! Skuggar á lélegri röntgenmynd frá 1979 eru ekki nóg. Teikningin var gerð af A. Gíslasyni.

 

VLFBERHT eða ULFBERHT sverð voru upphaflega hágæðasverð sem framleidd voru úr hágæðajárni sem flutt var til Evrópu frá Íran eða jafnvel alla leið frá Indlandi. Gæði járnsins voru meiri en þess járn sem unnið var í Evrópu, þar sem í Asíu kunnu menn að hita málminn með viðbættum kolefni í 1300-1400 gráður í lokuðum deiglum í lengri tíma. Við það styrktist járnið til muna og getur talist til stáls. Egg branda úr slíku járni voru harðari, og þar sem sverðin voru í notkun voru VLFBERHT-brandar taldir bera af öðrum sverðum. Sverðin þekkjast m.a. á því að merki með nafninu VLFBERHT hefur verið grafið og greipt með mýkri málmi (danska tauscheret, enska incrusted, sjá meira um tæknina hér) efst blóðrefilinn nærri tanga brandsins. Hinum megnin var skreyti með með XX- og II-laga táknum (sjá mynd neðar).

Fyrir nokkrum árum birti breskur vísindamaður Alan Williams að nafni, sem starfar við The Wallace Collection i London, niðurstöður sínar á rannsóknum á járninu í Ulfberht-sverðum (sjá hér). Williams uppgötvaði að norrænir menn eða aðrir fóru fljótt að falsa VLFBERHT branda. Að sögn William má oft sjá það á áletruninni, jafnt sem efnagreiningunni á járninu. Eftirgerðir voru með ranga stafsetningu á "brandinum" og minna innihald kolefnis í járninu. Að svipaðri niðurstöðu hefur fornleifafræðingurinn Anne Stalsberg komist, án málmrannsókna, en hún hefur aftur á móti sýnt fram á breytingar og úrkynjun á áletrunum, sem virðast haldast í hönd við verri gæði brandanna þegar fram líða tímar og fölsuð merkjavara kemst á kreik.

annestalsberg.jpg

Voru hin þrjú íslensku "VLFBERHT-sverð" merkjavara eða evrópsk soraframleiðsla?

Hvort gæði sverðanna frá Hrafnkelsdal og Hafurbjarnarstöðum hafi verið góð eða léleg, eða hvort inngreipt áletrunin sé úrkynjuð eður ei, veit ég ekki nógu gjörla til að geta sagt frá því. Áletrunin á brandinum frá Hafurbjarnarstöðum gæti þó bent til þess að sverðið hafi verið úr deigara járni en "ekta" VLFBERHT-merkjavara, sé gengið út frá niðurstöðum Alan Williams og Önnu Stalsberg.

Árið 1979 lét Kristín Sigurðardóttir röntgenljósmynda sverðin og þá komu mjög ógreinilegar áletranir í ljós. Hugsanlega hefur hún skrifað meira um þær löngu síðar í doktorsritgerð sinni, en ekki greinir hún þó frá því í frásögnum sínum af Hrafnkelsdalssverðinu sem birst hefur eftir að hún var rituð, t.d. í þessu riti, sem því miður inniheldur fjölda missagna og rangfærslna.

Greinilegt er að menn á Norðurlöndum, eða víkingarnir, (ef menn vilja halda í það kjánalaga safnheiti), hafa greinilega verið sólgnir í merkjavöru eins og helbeitt VLFBERHT-sverðin. Þeir hafa fljótlega séð sér færi á að falsa slíka hágæðavöru. Hér að lokum birti ég skopmynd sem einn snjall blaðteiknara Berlingske Tidende í Danmörku teiknaði er fréttin af niðurstöðum Alan Williams birtist í því blaði hér um árið.

483583-vikinger-solgte-kopivarer--.jpg

Merkjavöruprinsinn Valiant og Hrafnkell Freysgoði með linan VLFBERHT sinn í Skænudal?

Heimildir

Jón Hnefill Aðalsteinsson 1981. Sverðið úr Hrafnkelsdal. Árbók hin íslenzka Fornleifafélags 1981, bls. 40-47.

Kristján Eldjárn 1956. Kuml og Haugfé í heiðnum sið á Íslandi. Akureyri 1956. (Bókin endurútgefin árið 2000 með mjög takmörkuðum viðbótum og litmyndum).

Þór Magnússon 1971. Endurheimt Fornaldarsverð. Árbók hins íslenzka Fornleifafélags 1971, bls. 86-90.

Kristín Sigurðardóttir 1981. Tvö ný Ulfbert sverð? Ljóri 2. árg. 1. tbl. Nóv. 1981, bls. 7.

Kristín Sigurðardóttir 1994. Sverð frá Hafurbjarnarstöðum. Gersemar og þarfaþing. Þjóðminjasafn Íslands og Hið Íslenska Bókmenntafélag 1994, bls. 22-23.

Stalsberg, Anne. The Vlfberht sword blades reevaluated. Jenny-Rita [Næss]: Et utradisjonelt skrivested. Stavanger, Norway. Afmælisrit til Jenny-Rita Næss sem birst hefur á netinu. [Árstal útg. ekki fundið]

Williams, Alan R. 2007, ‘Crucible Steel in medieval swords’, Metals and Mines: Studies in Archaeometallurgy (London, 2007), pp. 233-241.

Skjalasafn Nationalmuseeet Kaupmannahöfn 2. Afdeling (Nú Afd. for Middelalder og Renaissance): Mál 317/00 [1900] merkt: Island; Sværd fra Vikinge-tiden.

Annar fróðleikur:

Hér er því haldið fram, að járnið í Ulfberht sverðum séu alls ekki úr Austurvegi, heldur hágæðastál ættað úr Taunus fjöllum í Þýskalandi. Sjá enn fremur hér. Samkvæmt Robert Lehmann er mikið arsenik í járni Ulfberht sverða. Það telur hann útiloka austrænan uppruna stálsins. Mér sýnist það ekki fara efnafræðingnum vel úr hendi að leika fornleifafræðing.

Áhugaverð fræðslumynd um VLFBERHT sverð, sem Jón Steinar Ragnarsson benti mér á á FB. Fræðslumyndin birtir niðurstöður Önnu Stalsberg án þess að nefna hana á nafn, en annars er þetta ágæt fræðsla og skemmtun:

 

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson 2015 © Varist falsanir og eftiröpun.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 396