
Ekki alls fyrir löngu skrifaði ég um 24 olíumálverk frá Íslandi sem Þjóðminjasafninu áskotnaðist árið 1928 úr dánarbúi dansks baróns. Þau eru nú geymd í Listasafni Íslands. Myndirnar áttu að sýna ýmsa staði á Ísland, en sýna miklu heldur ímyndunarafl listamannsins sem málaði myndirnar. Ég tel nokkuð víst, að Sæmundur Hólm (1749-1821) hafi verið höfundur myndanna og að hanni hafi selt þær Otto Thott greifa. Færði ég fyrir því ýmis rök (sjá hér og hér).
Otto Thott greifi skildi eftir sig meira sem Sæmundur hafði gert og selt honum. Greifinn hefur ugglaust verið velunnari margra stúdenta á listaakademíunni í Kaupmannahöfn, en þar var Sæmundur fyrsti Íslendingurinn sem stundaði nám. Otto Thott var líka mikill bóka og handritasafnari og safnaði m.a. ritum upplýsingaaldar. Eftir hann liggur eitt merkilegasta safn pólitískra ritlinga á franska tungu, sem margir hverjir varðveittust í Danmörku en ekki í ringulreið byltingar í Frakklandi fallaxarinnar. Thott greifi var afar upplýstur maður. Hann safnaði sömuleiðis bókum og ritum um alls kyns atvinnubætur og nýjungar í anda upplýsingaaldarinnar. Hann unni sömuleiðis mjög myndlist og fornum fræðum, þó svo að hann hefði ekki hundsvit á þeim efnum. Í höll Thotts á Gavnø á Suður-Sjálandi hangir fjöldi málverka af þekktum persónum sögunnar. Myndirnar eru greinilega málaðar eftir prentmyndum og koparristum. Gæðin eru ekki mikil og það læðist að manni sá grunur að Thott greifi hafi látið mála þessar myndir fyrir sig á akademíunni. Vel get ég ímyndað mér að Sæmundir ætti þar einhver verkanna.
Machina Sæmundar Hólm
Sæmundi var meira til listanna lagt. Hann úthugsaði líka vélar, Machinu, til fisk og selveiða. Hann settist niður og handritaði lítinn ritling á kynvilltri dönsku og myndskreytti, þar sem hann lýsti tillögum sínum að veiðiaðferðum á fiski og selum sem honum hafði dottið í hug. Ritlinginn kallaði hann Nogle Tanker om Fiske og Laxe Fangsten.
Ég tel næsta víst að verkið Traité général des pesches, et histoire des poissons qu'elles fournissent (Almennar frásögur af fiskveiðum, og saga af fiski þeim sem þær færa) hafi haft einhver áhrif á Sæmund. Höfundar verksins voru Henri-Louis Duhamel du Monceau (1700-1782), sem var einn af risum upplýsingaaldarinnar í Frakklandi, og Jean-Louis De La Marre. Byrjað var að gefa út ritið, sem var í þremur bindum, í París árið 1769. Hér er hægt að fletta verkinu góða.

Ugglaust hefur þetta verk verið til í einkabókasafni Thotts greifa, og einn þeirra 120.000 titla sem eftir hans dag voru seldir hinu Konunglega Bókasafnsins. Eins tel ég nokkuð öruggt að Sæmundur hafi komist í þetta verk og hugsanlega hjá greifanum. Það var ekki langt að ganga frá Listaakademíunni yfir í Kaupmannahallarslot Thotts, sem kallað var Det Thottske Palae, sem á okkar tímum hýsir franska sendiráðið í Danmörku. Svo tilgátusmíðum og vangaveltum sé haldið fjálglega áfram, þykir mér allt eins líklegt að Sæmundur hafi, líkt og íslendinga er siður, sniglast í kringum fyrirmenn og fengið að skoða og lesa í þessu merka franska verki um fiskveiðar og fiskirækt.
Ljóst þykir mér af öllu, að Sæmundur hafi verið okkar fyrsti Georg gírlaus, en greinilega var hann einnig haldinn vægum átisma. Hann gat ekki lært dönsku sér til gagns, og latína var ekki hans sterka hlið ef dæma skal út frá fleygum orðum á latínu á forsíðunni. En hann sá hins vegar smáatriði í eldgosum og úthugsaði vélar í smáatriðum til að efla veiðar. Ekki ætla ég að dæma um notagildi fiskivélar Sæmundar, en skemmtileg er hugmyndin.



Hvort Sæmundur hefur hugsað sér ritkorn sitt til útgáfu, er ekki hægt að segja til um með vissu, en það þykir mér þó líklegt. Greinilegt er út frá lýsingum á staðháttum að Sæmundur hefur haft íslenskt umhverfi í huga, enda hvergi neitt landslag í núverandi Danmörku sem líkist því sem hann lýsir í ritlingnum. Handritið komst í safn Háskólabókavarðarins, guð og sagnfræðingsins Abrahams Kall, sem var einnig mikill safnari í samtíð sinni. Safn hans var síðar selt Konunglega bókasafninu. Handritið með þönkum Sæmundar um fisk og laxveiðar fékk handritaeinkennisstafina Kall 628 b 4to.
Hér skal ráðin bót á þekkingarleysi Íslendinga á þessu framtaki Sæmundar Hólm. Fornleifur gefur hér með út lýsingu Sæmundar Magnússonar Hólm á fiskveiðimaskínu hans. Bókina er ekki hægt að kaupa.
Hér er hægt að lesa ritling Sæmundar Hólms Nogle Tanker om Fiske og Laxe Fangsten og hér má betur skoða myndir ritlingsins.
Hér er síðan hægt að lesa afritun mína af af textanum í ritlingnum með myndum Sæmundar.