Quantcast
Channel: Fornleifur
Viewing all articles
Browse latest Browse all 396

Nú er hún Snorralaug jacuzzi

$
0
0

1024px-snorralaug10.jpg

Ég frétti í gær af prófessor einum í germönskum fræðum í Kaliforníu, sem bauð dönskum sagnfræðingi í heita pottinn við heimili sitt í Kaliforníu, eftir að hann hafð dílað við Danann um þýðingarátak. Danski sagnfræðingurinn, sem á heimili bæði í Danmörku og í BNA, hafði leiðrétt bandaríska prófessorinn lítillega á ráðstefnu og það þótti prófessornum hið besta mál og bauð Dananum að þýða bók sína nýútkomna yfir á dönsku, og bauð honum höfundalaun sín í Danmörku fyrir vinnuna.

Daninn hugsaði málið og tók svo tilboðinu. Hann sat sumarlangt og þýddi bókina, og þegar hann afhenti þýðinguna var bandaríski prófessorinn allt í einu farinn að tala um hálf höfundarlaun. Daninn hafði ekki haft rænu á því að gera skrifalegan samning við bandaríska prófessorinn og var miður sín yfir refshætti prófsa.

Danski sagnfræðinginn, kom í gær til mín í kaffi, því ekki hef ég neina Snorralaug með vindverkjum heima hjá mér, þar sem ég get boðið mönnum í soðningu líkt og bandaríski prófessorinn. Ég spurði danska sagnfræðinginn, hvaða forlag hefði gefið bókina út, því flest dönsk forlög gefa lítil laun eða engin í höfundarlaun, nema að maður sé því frægari höfundur. Danski sagnfræðingurinn nefndi forlagið og ég hváði og varð kjaftstopp, því forlag það sem hann nefndi, sem ekki er lengur til, borgaði aldrei nein höfundarlaun svo heitið getur, en gaf hins vegar út fræðirit sem stór forlög í Danmörku vildu ekki gefa út.

Snuðaður í heita pottinum

Daninn fékk ekkert fyrir sinn snúð og margra mánaða vinnu. Jacuzziförin var bara prump í bala. Bókin kom svo út á dönsku árið 1999, en þá var þýðandinn á titilsíðu sagður allt annar maður en danski sagnfræðingurinn. Daninn sá aldrei krónu eða mosagrænan dal.

Ég tel víst, að bandaríski prófessorinn hafi mætavel vitað að hann myndi ekki fá höfundarlaun í Danmörku. Forlagið sem bók hans var gefin út hjá, þekki ég af eigin reynslu, sem ritstjóri ársrits gyðinga sem gefið var út um tíma af því forlagi. Prófessorinn, vel vitandi að forlagið borgaði ekki höfundarlaun, lokkaði mann til að þýða bók sína og þýðingin birtist svo undir öðru nafni en þess manns sem þýddi meginþorra bókarinnar. Síðar upplýsti prófessorinn hinn rétta þýðanda sem hlunnfarinn var, að hann hefði sjálfur ekki fengið nein höfundarlaun í Danmörku.

Ég hefði örugglega skitið í heitan pott ameríska prófessorsins, eða eitthvað mun verra, hefði ég verið snuðaður á þennan ógeðfellda hátt.

Saga þessi varðar vissulega líka fornleifafræðinga á Íslandi. Munið alltaf að fá allt skriflega. Skjall prófessora er ekki neins virði nema að það komi á löggildum pappír. Þannig eru lögin líka stunduð í BNA.

chicken-jacuzzi.jpg

Þetta jacuzzi er ekki kosher

og reyndar heldur ekki það sem sést á myndinni efst.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 396