Hér skal leystur blíður vindur í hitabylgjunni í Danmörku. Kannski er þetta hálfgert prump, en sumir hafa ef til vill gaman af því líka, ef ég þekki lesendahóp Fornleifs rétt.
Vind heitir hollenskt tímarit, sem ég hef eitt sinn skrifað grein í og vinn nú að annarri. Nú vita allir Íslendingar sem alið hafa manninn í Niðurlöndum, að vaffið á hollensku og í orðinu Vind er borið fram með sem íslenskt F. Vind er borið fram á niðurlensku líkt og fynd í fyndni á íslensku, og hefur ekkert með vind að gera. Vindurinn á hollensku er wind. Vind (fundur) er hins vegar nafnið á merkilegu og mjög fjölbreytilegu tímariti/magasíni um sögu, listasögu og fornleifafræði. Það er í einstaklega háum prentgæðum og inniheldur hágæðaljósmyndir. Greinarnar í tímaritinu, sem kemur út 4 sinnum á ári, eru ekki allt of langar og mjög læsilegar fyrir þá sem geta lesið sig fram úr niðurlensku, þó það sé aðeins í litlum mæli eins og það er raunin með mig. Svo er tímaritið ekki dýrt í áskrift (sjá hér). Síðasta tölublað er 210 blaðsíður. Eitthvað af auglýsingum er í ritinu, sem skýrir hve ódýrt það er. Auglýsingarnar eru þó ekki til ama. Á meðal þeirra eru kynningar á mikilvægum sýningum, uppboðum og menningarviðburðum víða í Evrópu. Fyrir þá sem eru að hugsa um að kaupa sér Rembrandt og álíka, þá er gott að líta í tímaritið Vind.
Gluggum í ritið. Sem dæmi tek ég eina grein í nýjasta hefti Vind, sem ég byrja á í áskrift minni. Greinin er eftir Marloes de Moor um altaristöflu meistarans frá Haarlem, Dieric (Dirk) Bouts (1415-1475) sem stendur í dómkirkjunni í Leuven í Belgíu. Taflan er talið til einna af helstu meistaraverka Niðurlanda á gotneska tímabilinu í myndlistasögunni.
Þegar ég var yngri og lærði fornleifafræði miðalda í Árósum, bráðvantaði mig góða mynd af ljósahjálmi sem hangir yfir síðustu kvöldmáltíðinni á altaristöflunni í Leuven. Maður varð á einhverju stigi kandídatsnámsins að skrifa 14 daga ritagerð um lausamuni frá miðöldum. Það fólst í því að maður hóf rannsóknarvinnu og bjó til 6 heimildalista yfir 6 mismunandi gripi sem maður afhenti til samþykktar. Þegar ritalistarnir höfðu verið samþykktir hófst lestur og nokkru síðar fékk maður dagsetningu á eitt af efnunum sem maður hafði fundið og dundað sér við. Þar á eftir hafði maður aðeins fjórtán daga til að skrifa. Mér var falið að að skrifa um ljósahjálma og kom mér það einkar vel, því ég hafði mikinn áhuga á efninu enda er um auðugan garð að gresja er kemur að ljósahjálmum sem varðveist hafa á Íslandi. Afrakstur áhugans getið þið kynnt ykkur á neðarlega á hægri spássíunni hér á Fornleifi, þar sem má finna ýmsan fróðleik um þessi forláta ljósfæri sem Íslendingar keyptu fyrir nokkra kýrrassa og notuðu fyrst og fremst í kirkjum sínum. Pistlarnir um ljósahjálma kalla ég Fiat Lux, Verði Ljós.
Þegar ég var í námi, voru ekki til góðar myndir á veraldarvef eins og í dag. Nú getur maður nánast hlaðið niður ljósmyndum listaverkum og safngripum eins og t.d. töflunni í dómkirkjunni í Leuven, og það í nær óendanlegri upplausn (sjá hér). Í þá daga, á síðustu öld, varð maður að gera sér að góðu ljósmyndir í lélegri upplausn úr bókum. Ég dró útlínur hjálmsins í Leuven í gegn á smérpappír, og endurteiknaði síðan útlínumyndina með bleki á teiknifilmu fyrir ritgerð mína. Myndin átti að sýna hvernig sumir ljósahjálmar af sömu gerð og þeir sem varðveist hafa á Íslandi, birtust í "samtímalist" meistara 15. aldar.
Á Íslandi varðveittust ljósahjálmar vel því þar voru kirkjur ekki rændar öllum málmgripum, líkt og gerðist víða um Evrópu. Þar geisaði nær endalaust stríð hjá friðsemdarfólkinu. Málminum (messing og bronsi) sem rænt var úr kirkjum, var beint komið í vopnaframleiðslu.
Ritgerð minni frá 1983 gaf ég titilinn Metallysekroner i senmiddelalderen og prófverkefnið sem lagt var fyrir mig hafði hvorki meira né minna en þennan titil:
Der ønsker enbeskrivelse af den senmiddelalderlige malmlysekrone i Vesteuropa. Desuden ønskes der en diskussion af anvendelse og produktionsforhold set på baggrund af en kortfattet oversigt over bronzestøberiets historie i det senmiddelalderlige Nordeuropa.
Ritgerðin fjallaði um hina mörgu hjálma sem varðveist hafa á Íslandi meðal annars í samhengi við ritaðar heimildir, efnahagssögu, fornleifafræði og út frá listsögulegu samhengi.
Hér fyrir ofan sjáið þið hjálm Bouts í ritgerðinni minni frá því fyrir 37 árum síðan. Það er miklu auðveldara að skrifa háskólaritgerðir í dag miðað við í "gamla daga1a" þegar maður varð að standa á haus í bókasöfnum til að finna það sem maður þurfti á að halda.