Nýlega greindi RÚV frá fundi (sjá hér) sem að öllum líkindum kemst á blöð sögunnar sem fornleifafundur sumarsins.
Slær hann við "Stöðinu" í Stöðvarfirði og breskum bjórflöskum sem nýlega fundust á Hellisheiðinni. Nú verður einfaldlega að friða allan Kópavoginn, eftir að svæðið varð glóðvolgur fornminjastaður. Sjáið varðveisluna á leðrinu. Ekki einu sinni farið að falla á gullið!
Einn ötulasti lesandi Fornleifs spurði á FB út í fundinn í Kópavogi:
Bendir mynstrið á keðjunni ekki eindregið til samísks uppruna? Og þar með eru færðar sterkar líkur á því að samískur shaman með sólarblæti, eins og lögun úrskífanna bendir sterklega til, hafi verið þarna á ferð, trúlega snemma á landnámsöld eða jafnvel fyrr.
Því var fljótsvarað:
Íslensk fornleifafræði hefur greinilega misst af manni eins og þér. En einu gleymdir þú í þessari yfirferð þinni sem minnir svo unaðslega á rök og snilli séra Láka heitins í Hólmi. Úrin stöðvuðust öll fyrir 9. öld og úrið með demantskantinum og ólinni úr hvítabjarnaleðri var greinilega annað hvort í eigu eskimóakonu, eða að shamaninn hafi verið samkynhneigður. Mér er sama hvort það var, því þú átt kollgátuna: Allt gerðist þetta fyrir Landnám í Kópavogi, áður en Norðmenn komu með Skriffinnana, kristnina og annan óþægilegan genderintollerans.