
Í dag hélt ég upp á 17. júní, aleinn. Ég kleif hæstu hæð yfir jafnsléttu á Sjálandi, sem er 45 metrar yfir umhverfinu í kring og 67 metra yfir sjávarmáli, og ekki nema tæpir 3 km. frá heimili mínu.
Staðurinn heitir Herstedhøje. Á 7. og 8. áratug síðustu aldar auðgaðist bæjarfélagið Albertslund á að leyfa öðrum bæjarfélögum á Stórkaupmannahafnarsvæðinu á losa sig við byggingar- og vegavinnuúrgang nyrst á landi sínu, í allt 3 milljónir teningsmetra. Síðan voru haugarnir græddir og liggja í jaðri eins stærsta skógar Danmörku Vestskoven sem einnig var ræktaður á þessum árum.
Víðsýnt er af hæsta hólnum á Herstedhøje. Til vesturs að Hróarskeldu, í austur að kirkjuturnum Kóngsins Kaupmannahafnar, suður í Kögunarflóa og eitthvað norður fyrir Héraskóg og Lyngby. Fáir Kaupmannahafnarbúar vita sem betur fer af þessari hæð, enda hætta þeir sér venjulega ekki út fyrir bæjarmúrana og þola ekki hærri hæðir en 6. hæð í Bellahøj.

Þegar upp á fjallið var komið breiddi ég út dúk við útsýnisskífuna sem þar er á gríðarstórum granítsteini. Ég setti á dúkinn tvo silfurstjaka og dró íslenska fánann að húni og í stórt glas hellti ég svo ískaffi sem ég hafði búið til heima. Ekkert sterkara var haft við hönd. Ég sönglaði svo og flautaði nokkra ættjarðarsöngva, eða þau erindi sem ég man í svipinn eftir langa útivist.
Til að fagna nýjasta sigrinum yfir ESB, sem gerir Dönum kleift að borða áfram kanilsnúða eins og þeir hafa alltaf gert, og sem Íslendingar hafa apað eftir þeim, át ég girnilegan snúð til að halda upp á afmæli Jóns Sigurðssonar forseta. Ég er alltaf með mynd af Jóni í veskinu.
Meðan ég smjattaði ánægjulega á snúðnum, hugsaði ég til þýsku sígaunafjölskyldunnar Ringat, aldraðra hjóna og barnabarns þeirra á 14. ári, sem ég ætla að skrifa um. Danir vildu ekki veita þeim landvist árið 1946 og helst koma þeim úr landi. Hjónin höfðu misst 4 af börnum sínum í Stutthof og Auschwitz, nokkur tengdabörn og fjölda barnabarna. Þetta voru því mjög pólitískt kórréttur 17. júní hjá mér.
Ég var lengst af einn í veislunni fyrir utan ær og lömb sem beitt er þarna á sjálenska hálendið. Þjóðlegra gat þetta ekki verið. Megn lykt af sauðataði og lambaspörðum, sólbrenndur og sauðalegur náungi í sólinni með snúð í andvaranum, hátt hafinn yfir lítilmennsku og lágkúru landsins fyrir neðan hann, næstum því eins og Andri Snær Magnason.
"Tillykke med fødselsdagen Jón, du ville have gjort það sama í mínum sporum."