
Ég var að verða alveg vonlaus eftir furðufréttum úr fornleifafræðinni árið 2014. Sigmundur Davíð hefur víst svelt allar fornleifarannsóknir eftir að hann gerðist yfirfornvörður landsins með hjálp einhverjar framsóknarpíu af Þjóðminjasafninu.
En í haustbyrjun var skemmtanariðnaðinum bjargað. Steinunn Kristjánsdóttir, sem hefur skemmt okkur mikið gegnum árin með "eskimóum" og "fílamönnum" sem hún hélt um tíma fram að hefðu verið sjúklingar á Skriðuklaustri, sagði nýlega frá "hálfgerðum þorpum" við klaustur á Íslandi. Þar hafa líklega búið hálfgerðir þorparar, eins og oft síðar á Íslandi.

Nú bætir Bjarni Einarsson um betur, þegar hann heldur því fram að hann hafni niðurstöðu Margrétar Hermanns-Auðardóttur um að byggð hafi hafist í Vestmannaheyjum á sjöundu öld. Hann er reyndar ekki sá fyrsti sem það gerir.
Bjarni segir. " Áður hafa verið leiddar að því líkur að fólk hafi búið í Vestmannaeyjum á tímabilinu 600-800, meðal annars svokallaðir papar, sem voru írskir og skoskir munkar." Þetta er ekki alveg rétt eftir Margréti Hermanns-Auðardóttur haft.
Bjarni segist hins vegar sjálfur með aðstoð jarðsjár og Ármanns Höskuldssonar eldfjallafræðings geta sagt að byggð hafi hafist örlítið fyrr í Herjólfsdal en um 871.
Það þarf ekki veðurbarinn jarðfræðing með sandpappírsbarka og jarðsjá til að sjá það. Um það hefur þegar verið ritað. Sjá t.d. hér. En gaman er að fleiri rústir hafi fundist umhverfis tætturnar sem Margrét rannsakaði í Herjólfsdal (sjá efst) á sínum tíma. Hún hefði örugglega líka fundið þær hefði hún haft aðgang að jarðsjá og yfirlýsingaglöðum sargbarka úr jarðfræðingastétt.
Afætuháttur íslenskra fornleifafræðinga er orðinn afar leiðgjarn. Geta menn ekki gert neitt frumlegt?