
Ég ritaði hér um daginn um nýja málverkafölsunarmálið, þar sem tvö málverk eftir Svavar Guðnason voru tekin í hald lögreglunnar í Kaupmannahöfn sama dag og bjóða átti upp málverkin hjá uppboðsfyrirtækinu Bruun Rasmussen.
Það sem Bruun Rasmussen var ekki tjáð nákvæmlega hvaðan ákæran kæmi, samkvæmt upplýsingum Niels Raben yfirmanni uppboða nútímalistar, og eigandi eins málverksins K.O. hefur heldur ekki fengið upplýsingar um hver hafi sett fram ákæruna, hafði ég samband við Ríkislögregluna á Íslandi. Þar sagði mér lögfræðingur, að Embætti sérstaks saksóknar að Skúlagötu 17 í Reykjavík væri það embætti sem sæi um þetta mál og hefði sett fram kæruna sem leiddi til þess að lögreglan í Kaupmannahöfn lagði hald á tvö málverk.
Er ég hafði samband við Sérstakan saksóknara í dag var mér tjáð að Ólafur Þór sérstakur saksóknari sæi um þetta fölsunarmál ásamt embættismanni hjá embættinu sem heitir Sveinn. Þeir voru fara á fund og gátu því ekki svarað erindi mínu, sem ég býst við að þeir svari skriflega og hafa þeir fengið erindið.
Spurning mín til embættisins er einfaldlega sú: Hvernig ákæra frá forverði við Listasafn Íslands, sem séð hefur málverk á netinu og slær því fyrirvaralaust út að það sé falsað, verði mál sem sérstakur saksóknari og Lista Sveinn starfsmaður hans taka að sér að kæra í og krefja lögregluyfirvöld í Danmörku gegnum NORPOL að gera upptæk. Ég fæ alls ekki séð af lögum nr. 135/2008, að það sé í verkahring Sérstaks saksóknara að rannsaka meintar málverkafalsanir. Sjá hér.
Hvað kalla menn rannsókn ?
Samkvæmt nýjum lögum (2014) um ráðstafanir gegn málverkafölsunum hefur Alþingi ályktað að fela "mennta- og menningarmálaráðherra að setja á laggirnar starfshóp skipaðan fulltrúum Listasafns Íslands, Myndstefs, Bandalags íslenskra listamanna, Sambands íslenskra myndlistarmanna, embættis sérstaks saksóknara, sem fer með efnahagsbrot, og mennta- og menningarmálaráðuneytis sem geri tillögur að ráðstöfunum gegn málverkafölsunum og skilgreiningu á ábyrgð hins opinbera í lögum gagnvart varðveislu þessa hluta menningararfsins. Þá fái hið opinbera frumkvæðisskyldu til að rannsaka og eftir atvikum kæra málverkafalsanir."
Þess ber að geta að slíkur starfshópur hefur ekki komið saman. Hins vegar hljóp embætti Saksóknara til nú eins og að verk látins íslensks listamanns væru í verðflokknum Picasso plus, og sala á meintri fölsun á verki hans (sem dæmt var falsað eftir að Ólafur Ingi Jónsson forvörður sá það á netinu/það var ranbsókn) væri brot sem setti efnahag Íslands í vanda. Það er eins dæmalaust vitlaust og þegar Bretar settu Íslendinga á hryðjuverkalistann. Vita menn hvað áætlað verð var á málverkinu á uppboði Bruun Rasmussen sem K.O. á Jótlandi setti á uppboð? Það eru skitnar 5350 € (40.000 DKK/825.000 ISK) Er ekki mikilvægara fyrir sérstakan saksóknara að setja bankafalsarana og bankaellurnar undir lás og slá?
Hvað haldið þið lesendur góðir? Er rétt að nota embætti sérstaks saksóknara til að eltast við hugsanlega fölsun í Danmörku, þegar embættinu ber fyrst og fremst að lögsækja menn sem settu Ísland á hausinn? Verk í eigu manns á Jótlandi, sem erfði verkið eftir foreldra sína sem voru þekktir listaverkasafnarar, sem keyptu málverkið árið 1994, getur vart hafa sett Ísland á hausinn árið 2008. En hvað veit ég?
Hvenær endar hin sér íslenska vitleysa? Vonandi verður sérstakur saksóknari eins duglegur við að lögsækja bankabófana og hann hefur verið í þessu nýupptekna fölsunarmáli. Fyrir nokkrum árum síðan var málverkafölsunarmálið talið eitt mesta og dýrasta mál landsins. Nú eru slík mál bara peanuts bæði hvað varðar stærð og kostnað.
